<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 19, 2002

Lægðinni skal vera lokið!!
Það var frábært að horfa á Liverpool spila í Ölveri í kvöld. Leikurinn gegn Aston Villa var bikarleikur eins og þeir eiga að vera og þó að maður sé ekkert sérstaklega hrifinn af því að liðið tapi niður tveggja marka forskoti þá er það alltaf gríðarlega sætt að vinna leiki á síðustu sekúndunum.
Gaman að sjá Gerrard í sínu besta formi...hann var hreint ótrúlegur á köflum. Baros átti stórleik og hlýtur að hafa unnið sér fast sæti í liðinu, Murphy átti mjög góðan leik, Riise var duglegur, Diao byrjaði vel en fjaraði síðan dálítið út. Hef reyndar áhyggjur af Babbel. Það virðist ætla að taka lengri tíma fyrir hann að jafna sig eftir veikindin en gert var ráð fyrir. Vonandi á maður þó eftir að sjá hann í sínu besta formi fljótlega. En ég hef sagt það áður og segi það enn; það er fátt, ef nokkuð, sem jafnast á við það að ærast af fögnuði yfir sigurmarki hjá Liverpool!!
Dagurinn skiptist annars nokkuð í tvennt hjá mér. Fyrir hádegið fundaði ég með Rauða kross fólki og þeim sem vista vef þeirra. Það lærði ég nýtt hugtak; Upplýsingaarkitektúr!! Við vorum semsagt að ræða við konu, sennilega á aldur við mig, sem hafði lært þetta fag í Þýskalandi og þar lærir maður m.a. hvernig maður á að byggja upp vefsíður. Ég vissi ekki að til væri sérstakt fag fyrir þetta en þessi ágæta kona hafði það góða sýn á vefinn að námið hlýtur að hafa borgað sig...þó að maður skilji auðvitað ekki alveg hvað maður lærir mikið í þessum fræðum á 3-5 árum. Þessi fundur gekk allavega vel og maður bíður spenntur eftir því að sjá útkomuna á nýja vefnum.
Eftir þetta fór ég að láta þynna á mér lubbann og síðan fór tíminn eftir hádegi þónokkuð í heimilisstörf, þar sem ég þurfti m.a. að festa ljós á baðinu, skrúfa almennilega saman rúmið hennar Lífar sem hafði verið við það að detta í sundur í nokkra daga og síðast en ekki síst; taka til í geymslunni. Það síðastnefnda kláraði ég reyndar ekki alveg en þó þannig að það er hægt að labba á gólfinu þar.
Ég skil annars ekki af hverju geymslur hafa lag á því að verða að svona miklum ruslkompum. Ég er ekki gefinn fyrir það að safna óþarfa drasli en samt er eins og þetta fyllist einhvern veginn. Stórfurðulegt!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?