<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 26, 2002

Týpísk jól
Annar dagur jóla upprunninn og ég er búinn að upplifa mjög dæmigerð jól. Þorláksmessa með síðustu þrifunum, pakkaútdeilingum, kirkjugarðsferð og skötu um kvöldið. Og síðan rann aðfangadagur upp sem byrjaði á annarri kirkjugarðsferð (þessi í Hafnarfirði). Mamma og María frænka mín voru í mat hjá okkur um kvöldið og síðan komu tengdaforeldrar mínir, Jenný og Hjalti, í heimsókn. Fín kvöldstund. Margt og mikið fengum við skemmtilegt í jólagjöf en ein gjöf hefur verið mest notuð hingað til. Það er spurningaspilið Ísland, sem er einskonar sambland af Trivial Pursuit og Matador. Maður svarar spurningum og þarf að gera eitthvað eftir því hvort maður svarar rétt eða rangt. Ýmisst borgar maður eitthvað eða græðir eitthvað eða að maður verður að syngja eða gera einhverjar leikfimiæfingar. Þetta er prýðilega skemmtilegt spil, og það skemmtilegasta er að gæfuhjólin geta snúist á örskotsstundu. Við Rósa höfum spilað þetta spil síðustu tvö kvöld og skemmt okkur konungslega en það virðist þó hafa verið smá fljótfærni í allri vinnu því það er töluvert mikið um stafsetningar- og prentvillur sem hefði verið hægt að forðast með góðum prófarkalestri. Svo varð ég dálítið svekktur þegar haldið var fram í einni spurningunni að Vilhjálmur Einarsson hefði hlotið önnur verðlaun í þrístökki á Ólympíuleikum árið 1960!! En spilið er annars skemmtilegt.
Í dag fer ég sennilega í jólaboð hjá stórfjölskyldu Jennýjar, mömmu hennar Rósu. Leikur Liverpool og Blackburn verður hvergi sýndur þannig að það hefur lítið upp á sig að vera að horfa á sjónvarpið einhvers staðar. Í kvöld er svo boð hjá Svavari pabba hennar Rósu. Og þar verður framangreint spil að sjálfsögðu með í för!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?