<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 16, 2003

Skólabúningar

Í gærmorgun fór ég í heimsókn í Áslandsskóla, þar sem verið var að taka nýja skólabúninga í notkun. Þessi stutta heimsókn varð mér reyndar nokkuð umhugsunarefni, enda hef ég ekki verið hrifinn af þessari hugmynd hingað til. Ég varð einnig að athuga málin líka með það í huga að dóttir mín mun byrja í þessum skóla á næsta ári.

En einhvern veginn virðist skólabúningahugmyndin mun betri núna þegar ég er búinn að sjá þetta í framkvæmd. Spurningin er hvort hugmyndin um hallærislega skólabúninga bresku einkaskólanna, með v-hálsmála peysunum og pilsunum eða stuttbuxunum hafi setið of föst í mér. En þegar ég sá börnin öll klædd í eins peysur (sem voru vel að merkja mjög flottar) og öll voðalega ánægð með lífið fann ég mig knúinn til að endurskoða afstöðu mína. Ef skólabúningarnir líta sómasamlega út og eru í takt við það sem gengur og gerist þá sé ég í raun ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta up víðar.

Könnun í leikskólum sýndi að foreldrar leikskólabarna á Hjalla væru hlyntari skólabúningum en aðrir foreldrar, sem er ekkert skrítið því að þar eru notaðir skólabúningar. Það segir manni kannski líka að menn eru hræddir við það sem þeir þekkja ekki. Það kannski segir líka ýmislegt að Rósa, sem er kennari, er orðin mjög hlynnt þessu, ekki hvað síst vegna þess að það sjáist á fötum barnanna jhvort þau eru fátæk eða ekki.

Semsagt, núna finnst mér skólabúningar alls ekki slæm hugmynd...jafnvel bara býsna góð.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?