<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 15, 2006

Martröð fréttamannsins

Aðfararnótt föstudags fékk ég martröð. Spurningin er hvort svona martraðir eigi eftir að vera reglulegur fylgifiskur fréttamannastarfsins.

Þannig var að ég hafði fengið það verkefni á fimmtudeginum að fara á fund um frumkvöðlastarfsemi í Háskólanum í Reykjavík. Aðfararnótt föstudags dreymdi mig að ég hefði farið á fundinn en gleymt mér síðan og farið beint heim í stað þess að fara upp í Útvarp og vinna úr efni fundarins. Draumurinn endaði á því að klukkan var orðin hálf sjö að kvöldi þegar ég uppgötvaði hvað hefði gerst og var í algjöru sjokki. Ég æsti mig við mann og annan í draumnum, svo mikið að ég vaknaði með andköfum og róaðist ekki fyrr en ég uppgötvaði að klukkan var hálf sex að morgni og ég ekki búinn að missa af neinu.

Það er langt síðan mig hefur dreymt eitthvað sem var svona svakalega raunverulegt.

***

Liverpool er bikarmeistari. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta séu klassískir úrslitaleikir sem við spilum. Ótrúlegur spennuleikur sem hvorugt liðið átti í raun skilið að tapa. Ég hef alltaf haft nettar taugar til West Ham liðsins og auðvitað hefur maður smá samúð með því. Það er hins vegar ekki annað hægt en að dást að þeim karakter sem Liverpool-liðið sýndi...nokkuð sem var ekki til í liðinu áður en Benítez kom til sögunnar.

Heyrði fyrir slysni í Hemma Gunn í gær þar sem hann talaði um að Liverpool hefði verið heppnir. En auðvitað fannst honum það engin heppni þegar United vann meistaradeildina með því að skora tvö mörk á lokamínútunum. Þetta er náttúrulega bara öfund enda United ekki unnið titil í tvö eða þrjú ár.

***

Nú er runninn upp þriðji dagurinn í fimm daga vaktafríi. En hver er að telja? ;)

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?