<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, desember 17, 2002

Jæja, þá er búið að jarða ömmu. Falleg athöfn og verð sérstaklega að hrósa söngnum en það voru um 10-15 góðir karlsöngvarar sem gerðu það listavel. Tilfinningarnar brutust út hjá mér þegar þeir sungu Drottinn er minn hirðir og ég táraðist. Fékk þá smá útrás.
Ég var einn af átta kistuberum og þótti vænt um að geta fylgt ömmu síðasta spölinn með þessu móti. Það er eins og maður sé fyrst núna að meðtaka það að hún sé ekki lengur á meðal okkar en það eru þó alltaf þessar góðu minningar sem fylgja henni og munu alltaf gera það.
Jæja, síðan fylgdi í kjölfarið erfidrykkja á Hótel Loftleiðum og þá kom í ljós að það voru fleiri sem mundu eftir henni en við héldum. Taldist fólki til að um 170 manns hefðu sótt erfidrykkjuna, sem var töluvert meiri fjöldi en búist var við. En kannski hefði það ekki átt að koma á óvart.
Jæja, en allavega hafa síðustu sex dagar verið viðburðaríkir. Var dálítið hissa þegar ég sá VF á fimmtudaginn á því að viðtalið sem lá svo mikið á að taka við sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar birtist ekki í blaðinu. En ætli það muni ekki gerast næst. Hins vegar birtist viðtal við Magnús Gunnarsson sem mér fannst hafa verið gerð ágæt skil. Ég ákvað að sleppa leik Liverpool og Vitesse á fimmtudagskvöldið og reyndist það gæfurík ákvörðun því mér skilst að þetta hafi ekki verið sérstakur leikur.
Föstudagurinn var hinn rólegasti og afskaplega fátt markvert sem gerðist. Fyrir hádegi tók ég þó viðtal við miðaldra konu frá Kosovo sem hafði orðið illa úti í stríðinu á Balkanskaganum. Þetta viðtal á að birtast í fræðsluriti Rauða krossins sem ég hafði áður sagt frá. Við hjónin skelltum okkur eftir hádegi í búðarferð að kaupa jólagjöfina okkar frá mömmu (mjög praktísk leið til að verða sér út um fína hluti) og fundum þennan fína skrifborðsstól en báðir stólarnir sem við áttum höfðu sundrast í frumeindir sínar. Allt annað líf að sitja við tölvuna núna. Síðan þurfti að redda yfirliti til að áthuga hverjir voru síðastir til að borga í Liverpool-klúbbinn í tæka tíð til að fá jólasendinguna (fyrir þá sem vita það ekki þá er ég varaformaður Liverpool-klúbbsins).
Laugardagurinn fór svo í að pakka þessari sendingu inn, en hún samanstóð af fréttabréfinu Rauða hernum, nælu, jólagjöf (sem var geisladiskur þar sem Á móti sól og Hreimur sungu You'll never walk alone) og dagatali. Þetta skotgekk, enda einvala lið að hjálpa okkur við þetta, og við vorum búnir að þessu upp úr fjögur. Þá skutlaði Krissi (gjaldkerinn) mér að Ásvöllum þar sem ég hitti Rósu, en hún var á Evrópuleik Haukanna í handboltanum. Líf hafði verið í afmæli hjá dóttur vinkonu hennar Rósu og endaði síðan á því að gista þar, eða hún sofnaði þar á meðan við vorum þarna og svo fengum við okkur bjór og spiluðum með foreldrunum, þeim Röggu og Bjarna (Ragga er vinkona hennar Rósu). Mjög ljúf kvöldstund.
Á sunnudeginum var það svo hefðbundinn sunnudagsbolti á Nesinu en hverjum tíma er yfirleitt ítarlega lýst í blogginu hans Svenna. Síðan tók við vinna við fræðsluritið þar sem ég skrifaði m.a. framangreint viðtal og fór yfir texta sem ég hafði skrifað áður. Meðan á þessu stóð fylgdist ég með leik Sunderland og Liverpool og þurfti að hlusta á lýsingu á enn einu tapinu. Ég á eftir að koma með frekari hugleiðingar mínar um Liverpool síðar en segi aðeins eitt í þetta sinn: Það er eitthvað að en það er ekki lausn að reka stjórann. Houllier er rétti maðurinn til að hefja Liverpool til vegs og virðingar á ný.
Mánudeginum hefur þegar verið lýst. Og þar sem þetta var mikil upptalning hef ég ekki alveg kraft til að koma með einhverjar hugleiðingar um lífið og tilveruna...en það kemur að því!
Until next time!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?