<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Erfiðir dagar
Síðustu dagar fyrir blað eru alltaf erfiðir, en þetta var sérstaklega slæmt í gær og í dag. Í gær fór ég á sex staði til að ná í efni, sem verður að teljast nokkuð mikið. Fyrst heimsótti ég Björk Jakobsdóttur Sellófon-leikkonu og tók við hana viðtal sem mun birtast í næstu viku (skúbb úr viðtalinu munu hins vegar birtast í blaðinu á morgun). Síðan fór ég á Hrafnistu að taka myndir af sigurvegurunum í pokakastkeppni sem ég því miður náði ekki að fara á sjálfur. Eftir það tók ég mynd af undirskrift samstarfssamning vegna fyrirtækjasýningarinnar sem verður í Kaplakrika í vor, þá fór ég á menningardaga í Áslandsskóla, síðan að taka Mann vikunnar við Bryndísi Jónsdóttur Haukamarkvörð sem átti svo sterka innkomu í bikarúrslitaleik kvenna og endaði svo á Indverska veitingastaðnum Shalimar sem opnaði í gær. Þetta var því þéttskipuð dagskrá og ég var fram á nótt við að vinna úr þessu efni. Ég veit að það er til leið til að minnka þennan spreng sem verður á mér undir það síðasta...ég verð bara að finna hana.

Bikarleikurinn
Talandi um bikarleikinn þá gladdist ég mjög yfir sigri Hauka í bikarúrslitaleik kvenna í handbolta og ekki síður yfir því að HK næði að vinna karlaleikinn. Mér hefur alltaf fundist vera einhver sjarmi yfir þessu HK-liði, það er svo mikil stemning og leikgleði í liðinu þrátt fyrir að ekki sé mikið af stjörnum í því (eða er það kannski einmitt ástæðan fyrir því?). En ég var semsagt mjög sáttur.

Liverpool
Nú er leikur framundan á morgun við Auxerre og síðan er stórleikur gegn United á sunnudaginn. Vissulega er tap gegn Birmingham (og í þokkabót verðskuldað tap!) ekki besta veganestið í þessa leiki, en það hlýtur þó að vera að þeir mæti grimmir til leiks í þessa leiki í von um að redda tímabilinu með tveimur titlum. Ég veit allavega ekki hvað ég á eftir að hoppa hátt upp ef Liverpool nær að vinna United í Worthington-bikarnum og það myndi lækka rostann í mörgum sem vilja Houllier burt.

Lúðrasveit verkalýðsins
Ég var lengi félagi í Lúðrasveit verkalýðsins, hætti reyndar þar fyrir tveimur árum. Nú á sveitin bráðum 50 ára afmæli og var ég beðinn um að spila með einhverri "heldri manna sveit" á afmælistónleikunum, sem verða 8. mars. Ég sagði að það væri mér sönn ánægja og mætti á æfingu hjá þeim í gærkvöldi. Það komu óneitanlega ýmsar minningar upp í hugann þegar ég kom aftur í þetta gamla húsnæði en það var vissulega gaman að því að blása aftur í saxafóninn, sem ég hef varla snert síðan ég hætti.

Blaðamarkaðurinn í Hafnarfirði
Margir hafa spurt mig að því hvort að markaðurinn í Hafnarfirði beri tvö bæjarblöð, og eru þá að vísa í samkeppnina á milli VF, sem ég er fréttastjóri fyrir, og Fjarðarpóstsins. Ég hef jafnvel verið spurður af því að mörgum hvort að þetta eigi ekki hreinlega eftir að hafa þær afleiðingar að Fjarðarpósturinn hætti að koma út, þar sem blaðið mitt er ekki bara stærra heldur talar fólk sem ræðir við mig um að það lesi meira í því.
Það er alveg ljóst að við erum að gera mjög nýja og merkilega hluti sem hafa ekki verið gerðir áður og fyrri bæjarblöð hafa annaðhvort ekki haft getu eða bolmagn til að gera. Og þessi ferski blær sem við komum með hefur alltaf mælst vel fyrir. Að þessu sögðu þá er ég alls ekki að segja að það sé ekki pláss fyrir tvö blöð og í raun og veru myndi mér þykja það mjög slæmt ef að Fjarðarpósturinn legði upp laupana. Og þá er það ekki bara af þeirri ástæður að samkeppnin hjálpar manni við að halda sér við efnið, heldur líka það að efnið sem við erum að fjalla um er á stundum ólíkt, sem sýnir kannski hvað mest hvað Hafnarfjörður er fjölskrúðugur bær sem hefur mikið upp á að bjóða. Ég vona því að ég eigi eftir að keppa við Fjarðarpóstinn áfram á jafnréttisgrundvelli, þó að ég verði að vísu að viðurkenna að það sé þessu blaði ekki til mikils álitsauka að kalla sig "Eina hafnfirska fréttablaðið" á síðunni, bara af því að útgefandi blaðsins er staðsettur í Keflavík. Við erum þrjú sem vinna á blaðinu, allt Hafnfirðingar, og öllu hafnfirskara getur blaðið ekki orðið!



0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?