<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Reykjanesbrautin
Það segir sitt að síðast þegar ég bloggaði síðast var ég að að byrja á langþráðri úttekt sem ég lauk í gærkvöldi. Þessi úttekt, sem er á Reykjanesbrautinni, mun birtast í VF á morgun og einnig á vefnum vf.is þannig að ég fer ekki að láta meira uppi um hana strax. En það verður að segjast eins og er það það hefur verið mjög fróðlegt að setja sig inn í allt þetta sem tengist blessaðri Reykjanesbrautinni. Mér sýnist reyndar bottomline-ið í þessu reyndar vera að Sjálfstæðismenn hafi verið uppi með flotta lausn á gatnamótunum við Lækjargötu/Hlíðarberg en það er hins vegar algjörlega óvíst hvort bærinn hefði ráðið við hana fjárhagslega. Allavega heldur Samfylkingin það ekki. Ég treysti mér reyndar ekki til að fullyrða hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér þar. En það fyndna í þessu öllu er að vegbæturnar sem ríkisstjórnin er að tilkynna um, og tók Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð sérstaklega sem dæmi um framkvæmd sem ætti að flýta, hefur í raun engin áhrif á framkvæmdir við Reykjanesbrautina. Og þó að það sé vissulega gott mál að setja peninga í atvinnulífið nú á tímum mikils atvinnuleysis þá finnst mér þetta dæmi sýna að það er komin kosningaskjálfti í pólitíkusana, hvort sem það er svo gott eða vont.

Fjörukráin
Ég átti annars í kvöld góða stund í Fjörukránni. Jóhannes Bjarnason, kraftaverkamaður þar, var nefnilega að opna hótel þar, sem er nokkuð sem hefur vantað mikið í Hafnarfjörðinn. Ég hef áður setið veislu sem Jóhannes hefur boðið til og ég held að það séu fáir sem veiti betur en hann. Það er ótrúlegt hvað maðurinn er búinn að gera fyrir bæinn á þessum tíma og þetta er eitt dæmið um það. Þetta hótel er að sjálfsögðu í víkingastíl og ég hefði satt að segja ekkert á móti því að gista þar einhvern tíman þegar færi gefst.

Miðvikudagar
Það er alltaf léttir þegar miðvikudögunum er lokið og maður er búinn að skila af sér blaði. Þessu hefur fylgt töluverð kvöldvinna á þriðjudögum og í gærkvöldi var ég t.d. að fram að miðnætti. En ýmis ánægjuleg vinna hefur átt sér stað. Það sem er kannski ferskast í minni fyrir utan Reykjanesbrautina er að ég tók Ragnheiði Gröndal söngkonu sem mann vikunnar. Þessi stelpa virkaði strax gríðarlega vel á mig, mjög sjarmerandi og hefur mikla útgeislun, og ég hef alltaf kunnað að meta það við fólk. Ég komst svo að því í spjalli við hana að bróðir hennar hafði lært á saxafón í FÍH á sama tíma og ég. Þetta er alltaf jafn lítið land. En það liggur við að ég vonist til að Ragnheiður komist í Eurovision eftir þessi kynni við hana, þrátt fyrir að ég sé ekki búinn að heyra lagið hennar ennþá!
Ég spjallaði líka við formann golklúbbsins Keilis, sem fékk hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar í síðustu viku. Það er gríðarlega mikið framundan hjá Keili og framlag þeirra til ferðaþjónustu er meira en menn átta sig almennt á.

Veðrið
Meira hvað búið er að ganga á í veðrinu. Þegar ég kom heim úr vinnunni seint í gærkvöldi ætlaði ég varla að komast að dyrunum fyrir roki, allt var svo dottið í dúnalogn í morgun en nú er að hvessa aftur þegar þetta er skrifað. Ég er hins vegar kominn með einhvern nýjan fídus sem ég veit reyndar ekki alveg hvernig stóð á að mér bauðst að hlaða honum niður. Hann er nefnilega þannig að ég get fylgst með hitastiginu í Reykjavím meðan ég er við tölvuna því það birtist alltaf neðst til hægri á skjánum. Mjög skemmtilegur fídus en myndi sennilega gagnast mér betur í vinnunni en heima.

Liverpool
Það er svolítið erfitt að vera púllari núna þar sem maður er að fá yfir sig skot, jafnvel frá öðrum púllurum, sem erfitt er að sitja undir. En mér er sama hvað aðrir segja, ég hef séð miklar framfarir á liðinu í síðustu fjórum leikjum og skil ekki menn sem eru enn að tala um að liðið spili ekki sóknarleik. Ég hef séð bara hina prýðilegustu sóknartilburði í síðustu leikjum en það sem hefur klikkað er færanýtingin. Ég sé öll merki þess að það er bara tímaspursmál hvenær Houllier nær að stýra liðinu til glæstra sigra...held reyndar að það gerist strax á næsta tímabili. En hann verður þó að ná því takmarki í vetur að komast í meistaradeildina. Tapið gegn Crystal Palace og jafnteflið gegn Boro var vissulega sárt en það var ekki slök spilamennska sem varð liðinu að falli þar. Einhverjir verða hins vegar að fara á skotæfingu hjá liðinu.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?