<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Íslenskir neytendur eru aumingjar

Sem blaðamaður verð ég auðvitað að lesa reglulega dagskinnu Árna Guðmundssonar, sem er formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Í gær lýsti hann upplifun sinni í Svíþjóð, þegar salan á kóki hrundi um 95% vegna þess að kók-fyrirtækið var bendlað við hvarf á verkalýðsleiðtoga í einum af verksmiðjum fyrirtækisins í Suður-Afríku. Þarna sýndu sænskir neytendur hug sinn í verki svo um munaði og ef einhver vogaði sér að kaupa kók var sá hinn sama litinn hornauga. Árni bendir réttilega á það að þegar okkur mislíkar eitthvað hjá ákveðnu fyrirtæki eigi að sniðganga það.

En gera íslenskir neytendur þetta? Nei, ekki aldeilis. Þegar einhver nýr aðili kemur á markaðinn með lægra verð en þeir sem fyrir voru hafa boðið fara íslenskir neytendur ekki í hópum að skipta við það fyrirtæki. Nei, í staðinn bíða þeir þolinmóðir eftir því að fyrirtækið sem þeir hafa látið taka sig í óæðri endann árum saman lækki sig. Það endar svo með því að nýi aðilinn hrökklast í burtu og þá sjá hin fyrirtækin sér leik á borði og hækka aftur. Þetta sýndi sig vel hvað varðar bílatryggingarnar. Allt í einu var svigrúm til að lækka þegar nýr aðili kom inn mðe lægra verð. En um leið og hann hvarf var hækkað aftur. Merkilegt!

En íslenskir neytendur eru svo vanafastir. Ef þeir hafa einhvern tíman verslað einhvers staðar halda þeir því áfram sama hversu ósáttir þeir eru. Það vantar að frumkvöðlar séu studdir betur af neytendum. Vonandi verður þetta ekki svona með Iceland Express, sem Flugleiðir (það heitir víst Icelandair núna) vilja auðvitað endilega koma út af markaði sem þeir hafa ráðið einir. En þeir höfðu grunsamlega mikið svigrúm til lækkunar þegar þeir voru búnir að fá samkeppni. Ferlegt!

Hvenær ætla íslenskir neytendur að læra að það borgar sig ekki að láta snuða sig endalaust? Það þarf að láta þá njóta þess sem gera það ekki, á meðan þeir eru ennþá til!

Þvottavélaleysi

Nú eru slæmar aðstæður heima hjá mér - þvottavélin er biluð. Ég er að fara til Liverpool ásamt Rósu á miðvikudaginn eftir viku en fæ hugsanlega ekki vélina fyrr en á þriðjudaginn. Og þar sem Líf er að fara í pössun á þriðjudagskvöld er það of seint þannig að ef þetta fer á versta veg þarf að fara með þvottinn á milli ættingja og vina til að þvo.

Það er hins vegar þannig með þvottavélina eins og mörg önnur heimilistæki - maður gerir sér ekki grein fyrir mikilvægi hennar fyrr en hana vantar. Maður hefur verið vanur því í öll þessi ár að henda fötunum í vélina, fá þau síðan hrein en blaut úr vélinni og hengja þau svo til þerris. Og þegar fötin eru þurr er hægt að nota fötin aftur. Þvottavélin er svo mikilvægur hlekkur í heimiliskeðjunni að það setur nánast allt á annan endann þegar hana vantar.

Það sem kom mér kannski mest á óvart þegar ég hringdi í verkstæðið til að spyrja hvernig gengi með vélina að þá var alltaf svarað: "Hann er ekki við," eða "hann er inni, bíddu augnablik!" HANN??? Er bara einn starfsmaður að gera við þvottavélarnar? Bila þær kannski svona sjaldan hjá honum Johan Rönning? Er Fagor svona ægilega gott merki en ég bara svo mikill bjáni að láta vélina bila?

En hvað um það, nú vona ég bara það besta.

Norðurferð

Er á leið til Akureyrar á morgun og verð fram á sunnudag. Þetta er mín árlega pílagrímsför til ættingjanna á þessum fallega stað og í leiðinni á að njóta þess sem boðið er upp á á Akureyri um helgina. Við förum t.d. að sjálfsögðu að sjá Birgittu þegar hún kemur fram, bara fyrir Líf. Líf er reyndar orðin Jónsa-aðdáandi líka og því erum við búin að panta miða á Grease 30. ágúst. Spurning hvernig hún á eftir að fíla það.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?