<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 18, 2003

Brimklóarball

Ég held að það sé varla nokkur spurning að mesti viðburður helgarinnar í Hafnarfirði er ball með Brimkló í Kaplakrika á laugardag. Þó að ég sé tiltölulega ungur að árum, a.m.k. nógu ungur til að vera ekki kominn til vits og ára á blómaskeiði Brimkló, þá hef ég alltaf verið hrifinn af þessari hljómsveit, og hef reyndar verið frá barnæsku. Ég spilaði t.d. oft á fóninum heima þegar ég var krakki einu Brimkló-plötuna í tónlistarsafni mömmu og pabba, Sannar dægurvísur, en sú plata inniheldur hverja perluna á fætur annarri.

Ég væri alveg til í að reyna að kíkja á þetta ball...verð sennilega að gera það til að taka einhverjar myndir. Ég veit svosem ekki hversu sterk ballhljómsveit Brimkló er en miðað við sögurnar sem ég hef heyrt úr Stapanum um síðustu helgi þá er ég ekki frá því að þeir eigi eftir að ná upp ágætu stuði. Það á allavega eftir að koma í ljós hversu gamlir þeir eru í hettunni.

Hjólreiðar

Fór annars í gær að mynda upphaf reiðhjólaferðar sem Fjallahjólaklúbburinn stóð fyrir í tilefni af umferðar- og öryggisvikunni. Þar mættu 10 manns í hjólreiðaferð (alveg hissa á hvað komu margir miðað við að þetta var ekkert auglýst) og þetta rifjaði upp fyrir mér þá daga sem að ég hjólaði eins og brjálæðingur. Á unglingsárunum, þ.e. áður en ég fékk bílpróf, hjólaði ég úr Vesturbænum upp í Breiðholt og Árbæ án þess að finna nokkuð fyrir því. Ég veit að ég gæti þetta alls ekki núna þó að formið sé aðeins skárra eftir að ég tók upp á því að hlaupa reglulega. En auðvitað er þetta fínasti ferðamáti...þó að ég sjái ekki alveg að ég muni taka þetta upp með eins reglubundnum hætti og ég gerði áður. Til þess þarf ég allt of mikið á bílnum að halda í vinnunni.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?