<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 31, 2003

Hálka og klessa því samfara

Jæja, hálkan sagði til sín upp á hæðum í Áslandinu og varð til þess að tjón varð á bílnum mínum. Það skal greinilega aldrei vanmetið hvað sumardekk geta verið víðsjárverð í fljúgandi hálku.

Á miðvikudagskvöld var ég semsagt að keyra Rósu í Áslandsskóla og Líf fór með okkur. Þetta er reyndar í göngufæri en þar sem Rósa þurfti að koma m.a. með veitingar var betra að keyra. Þegar ég beygi niður brekkuna í Þrastarásnum fer bíllinn að renna, og rennur sífellt hraðar og hraðar án þess að ég fái við nokkuð ráðið. Þar sem bíll var að koma á móti var ekki um neitt annað að ræða en að beygja út af götunni og vona svo það besta. Mér rétt tókst að forða mér frá því að lenda á bílnum, þó að ekki hafi munað litlu, og bíllinn rann niður stuttan en bratta grasbrekku áður en hann lenti svo á húsvegg. Maður var bara feginn að enginn slasaðist og ekkert skemmdist nema bíllinn (það sá t.d. ekki á húsinu). Það var því lán í óláni. Frambrettið beyglaðist á bílnum og annað framljósið brotnað og miðað við hvað gekk á er það vel sloppið. En þetta var ekki mjög skemmtileg lífsreynsla. Það kaldhæðnislega var að fimm mínútum eftir að þetta gerðist kom saltbíllinn til að salta götuna!

Liverpool

Góður sigur á Blackburn á miðvikudaginn, þó að auðvitað dragi það úr hversu mikil prófraun þetta var að Blackburn hafi verið einum færri frá því seint í fyrri hálfleik. Ég var líka ánægður með Heskey, hann kom sér í fleiri færi í þessum leik en samanlagt yfir allt tímabilið það sem af er. En maður verður að sjá í næstu leikjum hvort að það sé eitthvað sem sé komið til að vera. Það er erfiður útileikur gegn Fulham á sunnudaginn sem er í raun stærra test en þetta. Sá leikur verður hreinlega að vinnast.

Eins árs afmæli

Víkurfréttir í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi sendu frá sér eins árs afmælisblað í gær, sem var stútfullt af skemmtilegu efni að vanda. Reyndar óvenju stútfullt núna þar sem það var 24 síður. Á sama tíma var ónefnt bæjarblað aðeins átta síður. Gaman að því!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?