<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, október 06, 2003

Kominn inn!

Jæja, þá er allt draslið komið inn og við búin að afhenda Holtsgötuna. Ég var að vísu við það að fá nett víðáttubrjálæði því plássið er töluvert meira en það sem maður átti að venjast (þó að Holtsgatan hafi verið stærri en Þrastarásinn þá var kjallarinn alltaf í útleigu og því aldrei notaður af okkur) auk þess sem er gríðarlega hátt til lofts. En ég mun örugglega venjast þessu. Það er líka frábært að koma inn í allt nýtt. Það er auðvitað ennþá mikið í kössum og næstu dagar fara í að koma sér fyrir.

Það kom þó smá óhapp fyrir í gær. Rósa fór þá í langþráð bað og eins og stundum gerist flæddi aðeins upp úr baðkerinu. Það sem við áttuðum okkur hins vegar ekki á var að kverkarnar í gólfinu voru ekkert kíttaðar þannig að við vorum allt í einu vör við að vatn væri komið undir parketið. Eftir að hafa haft samband við tryggingarfélagið, sem sagði okkur að við hefðum ekki heimilistryggingu í gildi þarna (enda nýflutt inn og ekki búin að færa trygginguna) hófust björgunaraðgerðir á parketinu með hárblásara þar sem reynt var að blása í götin. Þegar ég svo athugaði parketið í morgun virðist það hafa tekist ágætlega...í það minnsta þangað til annað kemur í ljós.

Hræðileg þjónusta Og Vodafone

Ég var með farsíma frá Tali frá fyrstu dögum fyrirtækisins og var ánægður þar. Þjónustan var góð, þar var talað við mann eins og maður væri fullorðinn og maður fékk alltaf á tilfinninguna að maður væri velkominn. Eftir að sameiningarnar við Íslandssíma áttu sér stað og fyrirtækið breytti sér í Og Vodafone (sem út af fyrir sig hefði átt að vera viðvörunarmerki miðað við hvaða lið Vodafone styrkir) hefur þjónustan hins vegar hríðversnað.

Við fengum okkur heimilissíma hjá Halló á sínum tíma sem Og Vodafone hefur tekið yfir. Við tilkynntum á föstudaginn fyrir viku að við værum að flytja á þennan stað og okkur var lofað því að síminn yrði fluttur á föstudaginn síðasta. Við ítrekuðum síðan beiðnina þá og var okkur þá sagt að síminn væri kominn. Þetta reyndist ekki rétt þegar við könnuðum málið á laugardaginn og þegar við hringdum aftur í Og Vodafone og málið var kannað kom í ljós að flutningurinn hafði ekki átt sér stað.

Okkur var lofað ADSL-tengingunni í dag en miðað við þessi vinnubrögð kemur hún sennilega ekki fyrr en í lok vikunnar. Þetta er hreint út sagt ömurleg þjónusta og ef símareikningurinn væri ekki svona lágur hjá þeim væri ég löngu búinn að skipta yfir í Landssímann aftur. Þeim hefði greinilega ekki veitt af því að halda einhverjum af þessum starfsmönnum sem þeir sögðu upp þegar sameiningin átti sér stað.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?