<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Gleðilegt ár!

Þar kom að því að maður settist aftur við, en jólatörnin í blaðinu tók af mér mikinn toll. Jólablaðið var 32 síður og bara asskoti gott fannst mér...þó að maður geti alltaf gert betur. Ekki spillti það heldur að fá margar góðar kveðjur frá þeim sem hafa bæði lesið blaðið og nýtt sér þjónustu þess. Asskoti gott.

Verra var hins vegar þegar DV tók upp á því að birta mynd af mér með frétt um lista yfir umsækjendur um starf dagskrárgerðarmanns á Rás 2. Ég lagði inn umsókn fyrst og fremst vegna þess að ég taldi mig ekki tapa neinu á því, ekki af því að ég væri í raun að hugsa mér til hreyfings, enda er slíkt þungaviktarlið að sækja um þetta starf að það er borin von að ég fái það. Þetta átti hins vegar ekki að fréttast en ég get samt í raun lítið gert í því að svo hafi verið. Hins vegar var það hálfslæmt að birta mynd af mér með þessu, sem er sennilega til komið vegna þess að þeir áttu mynd af mér í myndasafninu frá starfstíma mínum þar. En það er búið og gert.

Afslöppunarjól

Ég hef sjaldan legið í jafn mikilli leti og þessi jól. Jóladagur var t.d. einn allsherjar letidagur og aðeins var farið í tvö jólaboð og hafa þau aldrei verið færri. Það var mjög kærkomið að slappa svona af og mæta svo endurnærður aftur til vinnu. Mæli með að öll jól séu svona...þó að þau verði það sennilega ekki aftur.

Parketskipti

Það er kominn úrskurður frá matsmanni frá tryggingunum - það þarf að skipta um parketið í stofunni, eldhúsinu, hjónaherberginu og herberginu hennar Lífar. Það lak vatn undir parketið vegna þess að efra affallið í baðkerinu var laust og vatnið rann undir baðkerið í stað þess að fara í þar til gert rör. Maður er semsagt nýfluttur í íbúðina og þarf að ganga í gegnum svona rask. En maður fær allavega parket sem er tipp topp, þó að það kosti smá vesen.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?