<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Annir - eða hvað?

Ég held áfram að bera við önnum þegar ég afsaka bloggleysi mitt, enda hefur verið mikið að gera hjá mér. En að maður geti samt ekki fundið einhverjar tíu mínútur yfir daginn til að hamra eitthvað inn er eitthvað sem stenst ekki. Þá verður maður bara að kenna leti um...en sú leti sprettur auðvitað af því að maður hefur mikið að gera og finnst maður ekki hafa orku til að gera meira. Þannig að hvirt er þetta leti eða annir? Það er spurningin.

Vestfjarðarferðin

Það eru næstum því tvær vikur síðan ég fór þessa umræddu Vestfjarðarferð. Ég hef ekkert farið á Vestfirði...í raun bara á Djúpafjörð. Þó að maður hafi séð myndir frá svæðinu er upplifunin miklu sterkari þegar maður kemur á svæðið. Þarna sá maður t.d. hvað Vestfjarðargöngin skipta þetta svæði miklu máli...nánast jafn miklu máli og Hvalfjarðargöngin. Ég tók eitt viðtal á Flateyri líka og það var mikil upplifun að koma þangað. Ég tók þar viðtal við konu sem setti á laggirnar handverkshús skömmu eftir að snjóflóðin féllu þar og hefur gert mikið fyrir bæjarfélagið. Stundum fær maður á tilfinningunni þegar maður kemur í einhver lítil þorp að þetta séu algjör krummaskuð (t.d. Seyðisfjörður) en þá tilfinningu fékk ég alls ekki þegar ég kom á Flateyri (sem reyndar er núna hluti af Ísafjarðarbæ). Góður endir á ferðinni var svo ferð á Langa Manga þar sem ég fékk mér tvo bjóra (það var 2 fyrir 1 á tilboði) og las Bæjarins besta!

Pókerkvöld

Pókerkvöld var haldið heima hjá Jóa kvöldið eftir að ég hafði setið á Langa Manga. Þar dvöldu auk okkar tveggja Jón Heiðar og Arnar bróðir hans Jóa og þar var spilaður póker með Matadorpeningum, drukkinn bjór og viskí og reyktir vindlar (sem voru reyndar ekki upp á sitt besta, en vinslar samt). Snilldarkvöld og full (*hick*) ástæða til að endurtaka þetta innan ekki alltof langs tíma.

Páskarnir...

...voru ljúfir. Eiginlega alltof ljúfir því að þeir fóru mikið til í að spila CM, éta páskaegg og fara í matarboð. Jú, og svo var spiluð upptaka af spurningakeppni fjölmiðlanna þar sem ég keppti við annan mann fyrir hönd Víkurfrétta. Það má alltaf færa rök fyrir því að við höfum við mjög nálægt því að komast langt. Við unnum Útvarp Sögu í fyrstu umferð, þá Hallgrím Thorsteins og Sigurð G. Tómasson og held að við getum bara verið ánægðir með það. Síðan lentum við á móti fréttastofu Útvarpsins í næstu umferð og þar vorum við hálfu stigi yfir þegar komu einhverjar leiðinda hannyrðaspurningar í síðustu umferðinni sem konan í Útvarpsliðinu hafði réttar. Stigahæsta tapliðið átti að komast áfram og þar vorum við jöfn Sjónvarpinu og töpuðum á hlutkesti. Útvarpið komst svo í úrslit en tapaði fyrir DV með hálfu stigi. Það má því segja að við höfum verið mjög óheppnir í keppninni, en auðvitað hefðum við getað verið enn óheppnari. Ég var hins vegar með góðan mann í liðinu með mér, Þorgils, sem á eiginlega meiri þátt í þessum árangri en ég.

1 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?