<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 30, 2004

Túlkanir

Þegar eitthvað mál er umdeilt fara menn að túlka allt sem sagt er um viðkomandi mál sér í vil. Þetta hefur t.d. átt við í umfjöllun fjölmiðla. Fyrir skömmu voru Fréttablaðið og DV sökuð um að vera með aðför að forsætisráðherra. Þetta var reyndar aðför sem ég sá ekki. Nú um helgina var síðan Morgunblaðið sakað um að senda kjósendum skilaboð um að skila auðu í forsetakosningunum með forsíðufrétt á kjördag. Þá túlkun skil ég ekki heldur.

Ég held að menn geri stundum of lítið af því að lesa það sem stendur og of mikið af því að lesa á milli línanna. Margir lesa t.d. Fréttablaðið með þeim gleraugum að það sé í eigu Baugsfeða og beri að lesa það sem slíkt. Menn virðast síður lesa það út frá því sem stendur í blaðinu. Morgunblaðið er hins vegar ekki lesið með augum eigenda og ástæðan fyrir því virðist vera sú að eigendur Moggans séu ekki jafn áberandi eða jafn umdeildir og Baugsfeðgarnir.

Þegar Mörður Árnason Samfylkingarþingmaður lýsti þeirri skoðun sinni í fréttum á kjördag að Morgunblaðið væri að hvetja fólk til að skila auðu í forsetakosningunum með forsíðufrétt sinni skellti ég upp úr. Þegar forsetinn gerði svo það sama eftir kosningarnar varð ég hins vegar alveg gáttaður. Mér hefur alltaf fundist Morgunblaðið vinna sínar innlendu fréttir nokkuð faglega og sú skoðun breyttist ekkert þrátt fyrir þessa forsíðufrétt. Þetta fréttamat er kannski umdeilanlegt en það er alltaf hægt að deila um það hvaða frétt eigi að gera mest úr og hvaða plássi á að eyða í hana. Að fara að tala um einhverja Kaldastríðsblaðamennsku út af þessu er fáránlegt.

En hefur Morgunblaðið unnið gegn Ólafi Ragnari? Í leiðaraskrifum, já, þá hafa þeir gert það. En leiðararnir eru nú einu sinni til þess að hafa skoðanir. Hvað ritstjórnarstefnuna varðar get ég hins vegar ekki séð neitt slíkt.

Menn hafa líka túlkað það sem eitthvað persónulegt gagnvart Ólafi Ragnari hversu fáir mættu á kjörstað og hversu margir skiluðu auðu. Að mínu mati er ekki hægt að túlka að þeir sem mættu ekki á kjörstað hafi verið eitthvað á móti Ólafi Ragnari. Ég held bara að þessu fólki hafi fundist þetta vera bjánalegar og tilgangslausar kosningar sem allir vissu hvernig færu og ekki nennt að mæta þess vegna.

Það er hins vegar annað mál með þá sem skila auðu. Þeir eru hreinlega að segja að þeir séu ekki sáttir við neinn af frambjóðendunum. Það er nokkuð ljóst að bæði það fólk, og það sem kaus aðra frambjóðendur, eru ekki sáttir við störf Ólafs (og þurftu ekki forsíðufrétt í Mogganum til að segja sér það) og taldi aðra frambjóðendur ekki hæfa.

En Ólafur verður áfram forseti næstu fjögur árin...og kannski eru þá spennandi tímar framundan í pólitíkinni.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?