<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 13, 2004

Argh!!!

Það er allt að ganga á afturfótunum í fótboltanum, eða hefur gert það frá því að Liverpool vann Grazer AK á þriðjudag.

Hvað Liverpool varðar er allt logandi í fregnum um brotthvarf Michael Owen og allt bendir til þess að hann sé að fara til Real Madrid. Ég segi í raun það sama og ég sagði um Steven Gerrard, ef hann vill fara þá á hann að fara. Gerrard komst sem betur fer að þeirri niðurstöðu að hann vildi ekki fara, og spurning hvaða niðurstöðu Owen á eftir að komast að. Hann kringumstæður eru reyndar aðeins öðruvísi út af þessum samningamálum og mér finnst það heldur lúalegt eins og það kemur út að segjast vera alveg að fara að gera nýjan samning en síðan hætta við allt saman af því að Real Madrid sýnir honum áhuga. Þannig lítur þetta allavega út og þetta dæmi hefur orðið til þess að við fáum mun minn fyrir hann en við hefðum annars fengið. Ég vona að hann komist að þeirri niðurstöðu að hann vilji vera áfram, en ef ekki þá verður bara að hafa það.

KR-ingum gengur frekar illa, eru dottnir út úr bikarkeppninni og eitthvað virðist vera að þar á bæ. Það væri allavega rétti tíminn til að rífa sig upp á sunnudaginn þegar við þurfum að fara upp á Skaga.

Og svo liðið sem er orðið mitt lið nr. 2 vegna starfsins, FH. Þeir glutruðu niður tveggja marka forskoti í Evrópuleik gegn Dunfermline í gær, leik sem þeir áttu að vinna. Það hefði ekki verið slæmt að fara með 2-0 forskot til Skotlands, en þessi leikur var enn ein sönnun þess að það borgar sig ekki að draga sig til baka of snemma, allra síst í Evrópuleik þar sem mörk á útivelli eru gulls ígildi. Ég tel samt að FH eigi alveg möguleika á að vinna þetta lið í Skotlandi, en þá verða þeir að ná upp jafn góðum leik og þeir náðu upp lengst af í gær. Vonandi tekst þeim það.

Pósturinn

...er ekki að gera sig þessa dagana. Enginn póstur kom til mín í gær, ekki einu sinni fjölpósturinn. Það kemur yfirleitt mikið af bæklingadrasli á fimmtudögum og svo líka Fjarðarpósturinn, en það kom ekki arða til mín og samstarfskona mín, sem býr líka í Áslandinu, fékk engan póst heldur. Ástæðan fyrir því að ég beið spenntur eftir póstinum var þó ekki tilhlökkun yfir að fá allan þennan fjölpóst heldur var ég að bíða eftir bréfi frá Áslandsskóla með lista yfir nemendur í bekknum sem Líf dóttir mín verður í þegar hún byrjar í skólanum í haust. Ég vissi fyrir að það var búið að senda slíkt bréf út.

Ég gerði tvær tilraunir til að kvarta yfir þessu í gær. Fyrst hringdi ég í eitthvað þjónustuver hjá Íslandspósti. Þar vissi enginn neitt en mér var boðið að leggja inn kvörtun, sem ég gerði. Ég ákvað síðan að prófa að hringja í Nóatún þar sem póstafgreiðslan í Hafnarfirði er. Þar var mér vísað í eitthvað bréfberanúmer, og þar fékk ég þau svör að mikið hefði verið dreift af fjölpósti og að hann hefði farið eitthvað seint út. Ehrm...er þá "seint" sama og "alls ekki"????

Skelfilegt, hreint út sagt skelfilegt!!


0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?