<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Flúðahelgi

Svei mér þá, ég held að maður fari oftar á Flúðir um verlunarmannahelgina. Það var nefnilega heilmikið um að vera þar sem ég vissi ekki af áður.

Við keyrðum semsagt á föstudaginn á Flúðir, lögðum af stað upp úr tvö og ég kveið fyrirfram fyrir traffíkinni. Hún var vissulega mikil en þó skaplega og frekar lítið um brjálæðinga. Ég var á 80-90 km hraða alla leiðina og það var bara afslappandi. Föstudagurinn fór svo í heitan pott og bjórdrykkju, allt í rólegri kantinum en það átti eftir að breytast daginn eftir, því hann var fullur af skemmtilegum uppákomum.

Rétt eftir hádegið ákvað ég að labba með Bjarna félaga mínum (foreldrar hans eiga bústaðinn sem við vorum í) á Flúðir og tókum við dætur okkar, sem eru jafngamlar og mikla vinkonur með. Þetta var hálftíma gangur en vel þess virði. Við fylgdumst svo með torfærukeppni dráttarvéla í Litlu-Laxá og þar voru mikil tilþrif sýnd. Menn fóru þar upp hæðir og ofan í pitt, sem reyndar var svo djúpur að aðeins húsið stóð upp úr. Það fór reyndar með eina dráttarvélina en það voru alls sjö sem kepptu.

Síðan kom þriðja parið í bústaðinn og þá vildi strákarnir, Bjarni og Hilmar, fara í golf. Ég ákvað að slæðast með og spiluðum við 18 holur á Flúðum, reyndar með smá matarhléi. Þegar þessi félagar eru annars vegar þarf alltaf að veðja eitthvað smávegis, og þarf veðmálið yfirleitt að fela í sér einhverja nekt. Þeir tveir (ég var að spila golf í fjórða sinn og var því ekkert með í því veðmáli) veðjuðu sín á milli um að sá sem yrði neðar þyrfti að baða sig allsber í Litlu-Laxá. Bjarni vann þannig að Hilmar varð að láta sig hafa þetta.

Hins vegar var gert krassandi veðmál á 18. holu. Hún var öll púttuð og sá sem tapaði henni þurfti að hlaupa allsber frá Litlu-Laxá og inn í bústað. Þeir félagar urðu jafnir í 2-3 sæti þannig að ég var sá eini sem þurfti ekki að fækka fötum. Þeir duttu síðan báðir ofan í skurð á leiðinni, mér til mikillar skemmtunar. En ég var allavega agalega feginn að þurfa ekki að ganga í gegnum þetta.

Eftir þessar svaðilfarir og töluverða þynnku var svo haldið heim á sunnudeginum eftir að hafa komið við á furðubátakeppni, sem var líka skemmtileg að horfa á. Já, og svo keppti dóttir mín í stígvélakasti!

Blaðatörnin

Þessi eilífa þriðjudagsblaðatörn er alltaf erfið. Í gær var hún þó óvenju erfið af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hefur það tekið mig smá tíma að komast almennilega í gang eftir fríið. Í öðru lagi tapaðist dagur vegna verslunarmannahelgarinnar og í þriðja lagi er óvenju lítið af auglýsingum í blaðinu. Þessir samverkandi þættir urðu til þess að ég varð að fylla blaðið nánast af því sem mér datt í hug...en ég held að það hafi allt saman reddast. Vonum allavega að lesendur séu sammála því.

Sigur á Roma

Sigur vannst á Roma - en því miður missti ég af leiknum vegna vinnutarnarinnar. Gott samt að vinna þennan leik. Mér skilst að við höfum leikið töluvert betur í fyrri hálfleik og að Owen hafi skorað úr sínu eina færi í leiknum. Gott mál.

Nú er að styttast í deildina og það verður verulega gaman að sjá hvernig Skjá einum tekst að sinni ensku úrvalsdeildinni. Mér fannst valið á lýsendum eðlilegt nema að einu leyti. Eðlilegt að Snorri lýsi sem verkefnisstjóri yfir þessu batteríi, Snorri Sturluson er auðvitað þrautreyndur á þessu sviði og Kristinn Kjærnested hefur staðið sig ágætlega í KR-útvarpinu. En ég skil ekki alveg hvað Gunnar Helgason er að gera þarna og ég sé hann engan veginn sem týpuna til að lýsa svona leikjum, þó að ég kunni mjög vel við manninn sjálfan. En vonandi lætur hann mig éta þetta ofan í mig.


0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?