<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 13, 2004

Michael Owen - in memoriam
Þá er það orðið opinbert...Michael Owen er að fara.

Það er erfitt að einbeita sér að vinnunni þegar svona er (í bland við hitann sem er úti) svo það er best að koma þessu frá sér svo að maður geti gert eitthvað.

Það er hrikalega erfitt að horfa á jafn góðan leikmann og Owen fara frá Liverpool, sérstaklega þegar um svona uppalinn mann hjá félaginu er að ræða, en Owen hefur verið á mála hjá Liverpool frá því að hann var 11 ára gamall. Owen hefur skorað mörg frábær mörk fyrir okkur og oft yljað okkur Púllurum með snilldartöktum. En síðan um áramót hefur eitthvað verið að hjá honum. Hvað það er, veit ég ekki.

Menn hafa verið mjög gjarnir á að segja að Owen hafi ekkert getað í tvö ár. Það er bara rugl og sýnir hvað fólk er fljótt að gleyma. Owen var frábær frá byrjun tímabilsins og þangað til í október, en þá meiddist hann í leik gegn Arsenal. Síðan þá hefur hann ekki verið upp á sitt besta. Ég hef trú á því að þessi samningamál hafi eitthvað verið að plaga hann, þó að ég hafi ekki hugmynd um það. Öðru hverju síðan um áramót hefur hann þó sýnt hvers hann er megnugur og skemmst er að minnast marksins sem hann skoraði með enska landsliðinu gegn Portúgal á EM. Mjög magnað mark, og nokkuð sem vakti vonir hjá mér um að nú væri hann kominn í sitt besta form.

Vonir mínar urðu ennþá meiri þegar hann lýsti því sjálfur yfir í viðtali að nýr samningur væri að nálgast. Það virðist svo hafa snögglega breyst þegar Real Madrid lýsti yfir áhuga. Ég verð að segja það að ég er mjög svekktur út í Owen fyrir þessa framkomu. Það var algjör óþarfi fyrir hann að vera með þessar yfirlýsingar ef að nýr samningur fór eftir því hvort eitthvað tiltekið félag lýsti yfir áhuga. En fyrst Owen vildi fara var ekkert um annað að ræða fyrir Liverpool en að láta hann fara til að fá allavega eitthvað fyrir hann. En 8 milljónir punda er alltof lítið fyrir þennan snilling þó að einhver leikmaður frá þeim fylgir með í kaupunum - leikmaður sem ég veit reyndar ekkert um en vona að eigi eftir að reynast okkur vel.

Ég get ekki annað en óskað Owen góðs gengis hjá Real...þetta var eini staðurinn sem hann í raun gat farið á sem ég er sáttur við. En ég er afar ósáttur við hvernig þetta bar að og að mínu viti á Owen sjálfur mesta sök á þeirri atburðarrás. En hann fór þó allavega ekki á Bosman eins og annar ónefndur Liverpool-leikmaður gerði...og það ber að virða.

Nú er bara að vona að Baros og Cisse smelli í sókninni og Pongolle gangi vel að leysa þá af.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?