miðvikudagur, ágúst 11, 2004
Undarlegur dagur Dagurinn í gær var undarlegur, ekki bara veðurfarslega. Veðrið í gær, og að sumu leyti í dag líka, minnir mig á Bandaríkin. Gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem ég steig úr flugvél í Bandaríkjunum 14 ára gamall. Þá var lent í Chicago, og þegar ég steig út var það eins og að labba inn í gufubað. Þó að það sé kannski ekki alveg eins heitt núna og á þessum degi í Chicago er það kannski rakinn sem eru mestu viðbrigðin, því ég hef aldrei upplifað jafn mikinn raka hér á Íslandi. Það var sérkennilegt að vinna í gær, þar sem hitinn var eiginlega sá sami inni og úti, ef eitthvað er var hlýrra úti. Það sérkennilega var hins vegar að blaðið gekk óvenju vel, svo vel að ég gat gefið mér tíma til að skreppa á Players og horfa á leik Liverpool og Grazer AK. En Liverpool eru semsagt hin undarlegheit gærdagsins. Fyrst var Murphy seldur. Ég sé aðallega eftir honum af því að hann er enskur, plús það að hann er góð vítaskytta og vandséð hver tekur við því hlutverki. Þá er einnig sú tölfræði heillandi að Liverpool tapaði aldrei leik sem Murphy skoraði í. En það er samt slæmt ef enskum leikmönnum er að fækka of mikið. Ég vil allavega ekki hafa stöðuna þannig að Gerrard og Carragher verði orðnir einir eftir. Mikið er rætt um Owen núna og það verður að segjast eins og er að þó að Benitez tali um að bekkjarseta hans hafi verið taktísk ákvörðun kemur það illa út að hún hafi átt sér stað á þessum tímapunkti. Ég hef ekki hugmynd um hvort að Owen sé í viðræðum við Real en þögn Benitez gefur til kynna að í besta falli séu samningaviðræður hans á mjög viðkvæmu stigi. En vonandi höldum við Owen...það vita allir hvað hann getur. Annars var ég sáttur við fyrri hálfleikinn í leiknum í gær en seinni hálfleikurinn var hreinlega leiðinlegur. Við bökkuðum dálítið en þetta lið virtist ekki geta nýtt sér það og það eru engar líkur á að þeir slái okkur út, þeir eru það slakir. Ég myndi samt helst vilja sjá að þeir verði teknir almennilega í bakaríið á Anfield. |