<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 01, 2004

Fótbolti
Innanhússfótboltinn byrjaði í gærkvöldi eftir langa bið, en hópurinn minn hafði ákveðið að færa sig um set eftir langvarandi þjónustuleysti á Seltjarnarnesi. Nú er ég semsagt farinn að spila kl. 10 að kvöldi á þriðjudögum í KR-heimilinu. Mér leist ekki á þennan tíma til að byrja með þar sem þriðjudögunum fylgja alltaf miklar vinnutarnir en eftir á að hyggja er þetta tilvalið til að losa um eftir þriðjudagsstressið. Spurningin er hins vegar hvort að maður eigi það á hættu að missa af einhverju mikilvægu á bæjarstjórnarfundum á meðan maður er að sprikla. Í gær voru þeir að til kl. rúmlega hálf tólf, en maður kannski skilur það eftir langt sumarfrí að þeir þurfi að kjafta mikið.

Í Landsbankadeildinni heldur liðið mitt áfram að slá í gegn...eða þannig. Nú er ekki einu sinni hægt að vinna Fram! Skelfilegt. Stefán fer mikinn um þennan leik á bloggi sínu og vill fá Gunnar (undir)Sig. í landsliðið. Finnst það reyndar full langt gengið því að mér finnst Gunnar ekki eiga heima í landsliðshópnum frekar en Daði Lárusson (sem þó hefur líka átt frábært tímabil í sumar).

En staðreyndin er að vísu sú að við eigum engan sómasamlegam markmann sem getur leyst Árna Gaut af. Það er nú meinið.

Póker

Helgin var viðburðarík þó að óvenju lítið hafi verið að gerast tengt vinnunni. Laugardagurinn fór að vísu mikið til í leti og ég held að ég hafi aldrei áður horft á þrjá leiki í enska boltanum heima hjá mér á sama deginum. Þetta eru að vísu smá ýkjur því að ég horfði bara á helminginn af leik Norwich og Arsenal þar sem ég þurfti að mynda leik Hauka og Völsungs. Sá sigur Hauka kom þeim í betri stöðu, en samt er fallbaráttan enn í fullum gangi. Síðan voru sjósundsmenn frá SH myndaðir í Nauthólsvíkinni og fékk ég hroll bara yfir því að horfa á þá synda þarna. Bilaðir menn!

Laugardagskvöldið fór svo í pókerkvöld hjá Jóni Heiðari þar við við tveir ásamt Jóa spiluðum. Í fyrsta sinn spiluðum við um alvöru peninga, þar sem hver byrjaði með 400 kall. Ég kom út eiginlega á sléttu eftir kvöldið, kannski 20-30 krónur í plús, en það var Jói sem var hetja kvöldsins og gjörsamlega rakaði peningunum af Jóni. En þessi kvöldskemmtun klikkar aldrei.

Á sunnudag var svo tekið til og þrifið í nýju geymsluhúsnæði Liverpool-klúbbsins uppi á Höfða, þannig að nú höfum við til umráða geymslu og fundaraðstöðu. Mikill munur fyrir okkur, og geymsla Jóns Óla er mun rúmbetri í kjölfarið!

Þá var horft á Bolton-Liverpool, þar sem boðið var upp á sæmilegan fyrri hálfleik en ömurlegan seinni hálfleik. Fannst gagnrýnisvert af Benitez að skipta Warnock útaf fyrir Cisse en ekki Hamann, þar sem Warnock hafði verið sprækur í fyrri hálfleiknum. En maður þarf víst að bíða í einhverja mánuði eftir almennilegum stöðugleika í liðinu...vonandi ekki mikið lengur en það.

Búlgaría

Er að huga um hvort ég eigi að skella mér á landsleikinn gegn Búlgaríu á laugardaginn. Ætli maður eigi að láta sig hafa það? Veit það ekki ennþá.


0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?