<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Eurovision, taka 3

Áfram með yfirferðina:

Búlgaría: Ég fékk bjánahroll við fyrstu tóna lagsins. Virtist pínlegt fyrir söngvarann að standa í því að flytja þetta lag. Ferlega slappt.

Írland: Við fyrstu tóna lagsins hugsaði ég: "Nú, þetta gæti orðið ág;tis ballaða." Síðan æstust leikar, og lagið datt við það niður í algjöran ófrumleika. Mér dettur helst í hug að þetta lag hafi verið soðið saman í algjörum fljótheitum og lítið fyrir því haft. Annars er mesta furða hvað Írar hafa komist langt með ömurleg lög, þó að flest sigurlög þeirra hafi verið prýðileg.

Slóvenía: Lagið er ágætt en finnst það svolítið samhengislaust til að byrja með. Nær þó upp góðum dampi þegar líður á. Hugsa samt að það verði fyrir ofan miðju.

Danmörk: Alltof dæmigert og ófrumlegt lag, þó að það sé alls ekki versta lagið í keppninni. Á samt ekki von á því að þetta fari í gegnum forkeppnina.

Pólland: Hressilegt, fjörugt og frumlegt, en samt finnst mér eitthvað vanta upp á það til að það sé líklegt til árangurs í keppninni.

Og þá að lögunum sem fara beint.

Bretland: "Hey, sendum einhverja flotta stelpu sem getur hreyft sig og heldur þokkalega lagi, þá skiptir engu máli hvað lagið er ömurlegt." Þetta virðist hafa verið hugmyndin frá Bretum. Ég vona að hún virki ekki.

Malta: Vantar smá upp á lagið til að það fari úr því að verða sæmilegt yfir í að verða gott. Því miður er það bara sæmilegt.

Tyrkland: Alltaf þjóðlegir, þessir Tyrkir. En mér finnst þessi útkoma ágæt og nokkuð áheyrileg. Þetta ætti alveg að ná topp tíu.

Albanía: Annað lag á þjóðlegum nótum en þetta lag er ekki alveg að gera sig. Viðlagið er reyndar ágætt en erindin inn á milli eru þess eðlis að mann langar til að gera eitthvað annað á meðan þau eru í gangi.

Kýpur: Enn á þjóðlegum nótum, en núna sætur Kýpurstrákur. Gæti verið uppskriftin af velgengni. Lagið er hins vegar ekkert meira en skítsæmilegt.

Spánn: Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hata þetta lag eða elska það og skipti í raun um skoðun þrisvar meðan ég hlustaði á þetta. Nei, ok, endanlega skoðun: Of miklar umbúðir um of lítið innihald!

Serbía og Svartfjallaland: Fínt lag sem gæti náð langt. Gæti þó liðið fyrir það að þurfa ekki að fara í gegnum forkeppni. En þetta er nokkuð sigurstranglegt.

Svíþjóð: Leið fyrst eins og ég hefði heyrt lagið áður. Síðan tók lagið öðruvísi stefnu. Held samt að þetta sé lag sem gleymist auðveldlega.

Úkraína: Svona svakaleg stefnubreyting er algeng eftir sigurár, og það virðist alltaf gerast að það skili takmörkuðum árangri. Þetta mun þó örugglega fá einhver stig frá rappörum Evrópu og fá einhvern plús fyrir stríðsádeiluna í textanum en þetta mun ekki ná neitt gríðarlega langt.


Fimm lönd eftir....verða tekin fyrir fljótlega.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?