<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, apríl 25, 2005

Mistök

Eins og maður var eitthvað drambsamur og leit stórt á sig í síðustu færslu, hefur nú sannast hið fornkveðna á mér sjálfum að dramb er falli næst.

Það hefur gerst nú í fyrsta sinn á mínum blaðamannaferli að ég hef þurft að draga til baka frétt sem ég hafði skrifað. Mjög lærdómsríkt ferli, og í raun eitthvað sem ég segi nú eftir að hafa melt þetta atvik að allir blaðamenn hefðu gott af að ganga í gegnum. En þetta segir mér líka að maður eigi að hlusta betur á sjálfan sig áður en maður fer með eitthvað í loftið.

Á föstudaginn fór ég með þá frétt í loftið á vefnum að Ingimar Haraldssyni aðstoðarsparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefði verið sagt upp störfum. Þetta ákvað ég að fara með í loftið eftir að ég hafði fengið þetta frá tveimur heimildarmönnum sem ég taldi að væru áreiðanlegir. Ég fékk þetta hins vegar hvergi staðfest, einfaldlega vegna þess að ég náði ekki í neinn, og var því skeptískur á að setja þetta inn. Kollegar mínir kvöttu mig hins vegar til að gera það á þeim forsendum að ég hefði heimildarmenn fyrir þessu, og þá hugsaði ég sem svo að þetta væru það traustir heimildarmenn að þetta hlyti að vera rétt.

Ég er ekki að varpa ábyrgðina á aðra meða þessu, ég tók þessa ákvörðun og gerði það einn. En þetta kennir manni að það borgar sig stundum að hugsa málið til enda og bíða eftir staðfestingu réttra aðila (það þarf ekki alltaf, en í þessu tilviki hefði það borgað sig).

Í dag náði ég loks í nýjan stjórnarformann Sparisjóðsins og hann sagði að þetta væri ekki rétt, sagði að ég væri að búa til fréttir (sem er auðvitað ekki rétt, því að þetta var altalað á föstudaginn). Fréttin hefur því verið tekin út af vefnum og væntanleg er afsökunarbeiðni í blaðinu á fimmtudaginn.

Mér leið satt að segja hrikalega í dag fyrst eftir að þetta varð ljóst og þá skiptir það engu máli þó að ég sé viss um að margir reyndari blaðamenn en ég hefðu gert það sama í mínum sporum. Mér er nefnilega alveg djöfullega við það að greina frá einhverju sem er rangt og það er nokkuð sem ég myndi alls ekki vilja gera aftur. En ég er reynslunni ríkari eftir þetta og á endanum á þetta bara eftir að gera mig betri í því starfi sem ég er að vinna.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?