<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Pirraður samkeppnisaðili

Það er skemmtilegt að gera samkeppnisaðilan pirraðan. Og það er sérstaklega skemmtilegt þegar samkeppnisaðilinn tekur pirringinn út á eigin framleiðslu. Þetta er ég að upplifa núna mér til mikillar gleði.

Með samkeppnisaðilanum er ég að sjálfsögðu að tala um Fjarðarpóstinn, en það hefur sést á skrifum hans að hann hefur haft horn í síðu okkar frá því blaðið hóf göngu sína. Fyrir jólinn fór hann m.a. að tala um að Hafnarfjarðarbær styrkti minn fjölmiðil. Í leiðara blaðsins í dag fer hann að tala um að jafnræði í Hafnarfirði sé ólíkt eftir því hvað á í hlut og er þá að taka dæmi um lóðaúthlutanir til lögaðila í kjölfar þess að tillaga kom fram um að breyta úthlutuninni í bæjarstjórn eftir að bæjarráð hafði lagt fram sína tillögu. Ástæðan fyrir því að það var lagt til var að menn vildu skipta út einum utanbæjarmanni fyrir einn Hafnfirðing. Það er í sjálfu sér réttlætanlegt að gagnrýna það, enda ýmislegt í þessari ráðstöfun óvenjulegt.

Leiðarinn endar síðan á þessum orðum: "Sumarið kemur á morgun en bæjarbúar verða að lesa keflvísk blöð til að vita hvernig dagskráin verður vegna þess að aðrar jafnræðisreglur gilda um kaup Hafnarfjarðarbæjar á auglýsingum en gilda um úthlutun á lóðum. Þetta er jafnræði í Hafnarfirði." Ég fékk óstöðvandi hláturskast þegar ég las þessar línur, ég verð að viðurkenna það.

Það sem ritstjóri Fjarðarpóstsins er þarna að vísa í er að Hafnarfjarðarbær skiptir auglýsingum þannig á milli okkar að bærinn auglýsir alltaf eitthvað í hverri viku og skiptir því þannig að hann er aðra hverja viku hjá mér og hina vikuna í Fjarðarpóstinum. Yfirleitt er þetta svipaður skammtur í hvert skipti en í sumum tilvikum getur hann orðið stærri. Í sérstökum tilvikum er svo eitthvað auglýst í báðum blöðum. Blöðin eru því að fá svipaðan skammt hvort um sig af auglýsingum frá Hafnarfjarðarbæ.

Þetta myndu flestir telja nokkuð eðlilega ráðstöfun. Samkeppnin virðist hins vegar fara ósegjanlega í taugarnar á ritstjóra Fjarðarpóstsins og í stað þess að reyna að bregðast við samkeppninni á þann hátt að reyna að taka sig á og gera blaðið betra (sem hann hefur reyndar gert að nokkru leyti) kýs hann að koma með skot á okkur (sem snúast aðallega um að þetta sé keflvískt blað) bæði í miðli sínum og meðal fólks úti í bæ. Okkur hefur hins vegar gengið ágætlega, og Fjarðarpósturinn er bara ekki að höndla það.

Mér er það hreinlega hulin ráðgáta hvað hann heldur að hann græði á svona málflutningi. Hafnfirðingar eru ekki bjánar og sjá í gegnum svona skrif. Blaðið hans fær bara neikvæðan nöldurstimpil við svona skrif...og kannski þess vegna vona ég að hann haldi þessu áfram...þá mun okkur ganga enn betur!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?