<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 11, 2005

Baráttan við kerfið

Ég lenti í skemmtilegri baráttu við ríkiskerfið í gær og í morgun. Baráttan skapaðist kannski aðallega af því að ég fékk rangar upplýsingar frá einum starfsmanni, lenti í miklu veseni við að komast að réttu upplýsingunum og þegar það tókst loksins var búið að loka á staðnum þar sem ég gat fengið það sem ég var að leita að.

Svo að ég byrji á byrjuninni: Ég þurfi að ná í eintak af úrskurði frá Félagsdómi en ég hef ekki urft þess áður. Við smá rannsóknir á netinu komst ég að því að félagsdómur heyrir undir félagsmálaráðuneytið (hefði kannski getað sagt mér það sjálfur) svo að ég hringdi þangað. Starfsmaðurinn sem þar var fyrir svörum sagði að dómarnir væru geymdir á vef Alþingis.

Mér fannst þetta undarlegur staður til að geyma þessa dóma en fór samt að leita þar. Fann ekkert svo að ég ákvað að hringja í Alþingi. Fékk þar samband við mann að nafni Viggó sem starfar á upplýsingasviði. Hann kannaðist ekki við þetta og sagði að engin tengsl væru á milli félagsdóms og Alþingis (nokkuð sem ég þóttist vita). Viggó þessi reyndist hins vegar hinn hjálplegasti og vísaði mér á vefinn www.rettarheimild.is, þar sem dómar hinna ýmsu kærunefnda væru birtir.

Þegar ég reyndi að finna dóma félagsdóms þar kom upp kerfisvilla þannig að ég sá þann kost vænstan að hringja aftur í félagsmálaráðuneytið í von um að finna einhvern starfsmann þar sem vissi eitthvað. Það tókst í þetta sinn því að ég fékk samband við starfsmann sem gat sagt mér að félagsdómur væri með aðsetur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þegar þarna var komið sögu var klukkan orðin meira en fjögur og allt lokað í Héraðsdómi. Ég hringdi hins vegar þangað og náði samband við ritara félagsdóms sem sendi mér það sem ég var að leita að.

Þar sem ég veit núna hvar félagsdómur hefur aðsetur verður þetta ekki svona mikið vandamál næst. En það hlýtur að vekja upp spurningar þegar starfsmaður ráðuneytisins vísar mér á kolrangan stað til að leita upplýsinganna.

Blaðið

Nú er Blaðið búið að koma út fjórum sinnum. Ég get því miður ekki sagt að ég sé sérstaklega hrifinn. Mér finnst þetta í raun ekki bæta neinu við það sem fyrir er og get heldur ekki séð að þeir hafi verði að skúbba sérstaklega mikið fréttalega séð. Mér sýnist að helsti möguleiki Blaðsins á auglýsingatekjum séu fyrirtæki sem eru á móti Baugi og Baugsmiðlum og sjái þarna vettvang til auglýsinga. En mér finnst ég lítið hafa að sækja í þetta blað, allavega svona fyrst í stað.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?