<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júní 09, 2005

Snyrtimennska

...er nokkuð sem ég hef aldrei verið sérstaklega þekktur fyrir. Þeir sem hafa komið inn á skrifstofu mína sjá yfirleitt allt í drasli. Aðalorsökin fyrir því drasli er reyndar sú að dagblöðin eru ótrúlega fljót að safnast fyrir ef maður hendir þeim ekki um leið. Ingi hefur alltaf komið með Fréttablaðið að heim og síðan eru Mogginn, DV og Blaðið borin í vinnuna. Fyrir utan svo eintökin af Víkurfréttum, bæði af mínu svæði og af Suðurnesjunum. Ef maður gáir ekki að sér hækka staflarnir á ótrúlega skömmum tíma.

Nýjasti maðurinn inni á skrifstofunni, Valur Jónatansson, sem er vefstjóri á kylfing.is, hefur kvartað mikið yfir þessu, enda um annálaðan snyrtipinna að ræða. Því fékk ég á endanum snyrtikast, sem fólst í mun meiru en venjulegri tiltekt. Valur var búinn að tala um ýmsa skrifstofuhluti sem hann hafði vantað, m.a. geisladiska og plastmöppum til að geyma þá í. Þá vantaði hann líka bakka til að geyma pappíra. Ég ákvað í kjölfarið að panta aðeins meira af þeim og nota þá undir blöðin.

Nú er komið semsagt bakkasystem sem er þannig að blöðin eru geymd í þremur bökkum og eru blöð dagsins í dag í efsta bakkanum. Síðan eru þau færð neðar þangað til þeim er svo hent. Vonast er til að þetta dragi úr ruslinu.

Tímabundið er þetta farið að hafa þau áhrif að borðið mitt er snyrtilegra en borðið hans Vals núna. Vonandi endist það eitthvað áfram...fyrst og fremst af því að það er betra að hafa snyrtilegt í kringum sig þegar einhver kemur í heimsókn.

***

Kíkti í kvöld örsnöggt á tvo viðburði á Björtum dögum. Fyrst fór ég á fönkkvöld í Gamla bókasafninu. Ég hafði greinilega ekki lesið kynninguna alveg nógu vel því að ég hélt að þar ættu að fara fram tónleikar (kannski fóru þeir fram seinna, eftir að ég var farinn). Þetta reyndist hins vegar vera fyrirlestur frá Samma í Jagúar, sem var reyndar skemmtilegur og ég hefði gjarnan viljað hlusta á hann lengur. Hafði líka gaman af að sjá Samma. Við vorum saman í tónlistarskóla FÍH á sínum tíma og vorum á svipuðu róli þann tíma sem ég var í skólanum. Ég hélt einhvern veginn aldrei að hann myndi leggja tónlistina fyrir sig en hann hefur gert það svo um munar, því hann hefur verið að gera frábæra hluti.

Kíkti síðan á ljóðakvöld í Hafnarfjarðarleikhúsinu og það er líka eitthvað sem ég hefði viljað vera á bara til að njóta þess sem boðið var upp á. Skáld sem ég þekkti ekki var þar að fara með einhvers konar prósaljóð sem hljómaði ágætlega. Verst að geta bara droppað inn á svona viðburði.

Frábært annars hvað Bjartir dagar eru farnir að festa sig vel í sessi í Hafnarfirði. Þeir sem hafa komið þessu á koppinn eiga mikið hrós skilið og dagskráin er orðin mjög metnaðarfull. Maður er stoltur Hafnfirðingur á svona stundum.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?