<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 08, 2005

Frí, bleyta, fótbolti

Já, ég er kominn í frí. Fór til Akureyrar um helgina (reyndar löng helgi, frá föstudegi til þriðjudag) og það rigndi mestallan tímann. Er að fara í útilegu í Dalina núna um helgina og allt bendir til þess að maður rigni niður þar líka. Hvar er þetta frábæra sumar sem átti að vera samkvæmt Sigríði Klingenberg? Ekki hefur maður séð mikið af því hingað til. Ætli komi ekki önnur hitabylgja í ágúst þegar maður er byrjaður að vinna aftur!

Allavega hefur flakki um Snæfellsnesið í næstu viku verið slegið á frest vegna slæmrar veðurspár.

***

Það hafa skipst á skin og skúrir hjá mínum liðum í fótboltanum - reyndar hafa aðallega verið skúrir hjá öðru þeirra.

Miklar sveiflur voru í máli Steven Gerrard í vikunni. Margir rökkuðu hann niður þegar hann fór fram á sölu en tóku hann svo í guðatölu þegar hann ákvað svo að framlengja samninginn. Ég held að í afstöðu margra manna hafi mátt greina ákveðið skilningsleysi á þeirri stöðu sem Gerrard var í. Þó að við venjulegir stuðningsmenn Liverpool hafi ekki getað greint annað en sterkan vilja hjá klúbbnum til að halda honum getur vel verið að einhver merki hafi verið á bak við tjöldin sem Gerrard tók sem svo að ekki væri nægjanlegur áhugi fyrir að semja við hann. Það er eitthvað sem við vitum ekki, en Gerrard er alls ekki í öfundsverðri stöðu þegar verið er að gera út um þessi mál. Aðalmálið er hins vegar að hann komst að réttri niðurstöðu og það verður gaman að sjá liðið á næsta tímabili. Ég geri mér góðar vonir um eitt af þremur efstu sætunum í úrvalsdeildinni, en held að við verðum ekki meistarar fyrr en árið 2007 eða 2008.

Það er hins vegar algjör hörmung að sjá KR-liðið. Ég fór á leikinn gegn Val sem var skelfilegur og það sama má segja um leikinn gegn Skagamönnum í kvöld. Sá leikur hafði þó þann kost að KR-liðið byrjaði ágætlega en síðan var eins og menn nenntu þessu ekki eftir að Skagamenn skoruðu fyrra mark sitt. Mér skilst að í bikarleiknum gegn Víkingi hafi menn verið algjörlega búnir eftir 70 mínútur og það er alveg með ólíkindum ef leikmennirnir eru í svona svakalega lélegu formi. Hverju er þá um að kenna??

Í Skagaleiknum í kvöld var það helst Garðar sem reyndi að gera eitthvað, og Grétar átti ágæta spretti þegar hann fékk séns á því. Ég get samt ekki annað en vorkennt Grétari með þá stöðu sem hann er í. Það er ekki hægt að skora mörk þegar þjónustan er jafn ömurleg og raun ber vitni.

Það er eitthvað mikið að í KR-liðinu. Veit ekki hverjum um er að kenna, en eitthvað verður að gera.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?