<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 15, 2005

Hundahald

Þetta umræðuefni hefur einhverra hluta vegna verið áberandi síðustu daga hjá mér.

Ég skrifaði frétt í síðasta blað um tillögu starfshóps um reglur um hunda- og kattahald, sem ganga nokkuð langt. Ég fékk nokkur viðbrögð við þessari grein, bæði frá þeim sem eru með og á móti hundum. En á föstudaginn lenti dóttir mín óþyrmilega í kynni við skuggahliðar hundahalds, þó að hún hafi verið mun heppnari en vinkona hennar.

Ég tek það fyrst fram að ég var ekki heima þegar framangreint atvik átti sér stað. En það sem gerðist var að fólk var úti að ganga með hundinn á Kaldárselsvegi, neðan við blokkina sem ég bý í. Þau höfðu ákveðið að sleppa hundinum, sem var stór og svartur (hef enga hugmynd um hvaða tegund þetta var), lausum og hann fór að hlaupa í kringum dóttur mína og vinkonu hennar sem voru að leika sér í leiktækjum sem eru fyrir aftan húsið. Hann virðist nokkuð æstur og þegar vinkonan ætlaði að hlaupa undan honum dettur hún. Hundurinn kemur á eftir, glefsar í höfuðið og rífur af henni "buff" sem hún var með á höfðinu, og hárlokkur fór með. Rósa var heima og hljóp út, tókst að ná buffinu af hundinum og hafði síðan í hyggju að halda hundinum hjá sér og hringja í lögguna. Hundurinn slapp reyndar áður en að því kom og hljóp til eigenda sinna. Rósa kallaði til þeirra að hundurinn hafi glefsað í barn en eigendurnir tóku bara hundinn til sín og löbbuðu í burtu. Þau komu svo reyndar aftur og þá fór eitthvað á milli þeirra og nágranna okkar og eina athugasemdin var: "Já, við verðum greinilega að passa hundinn." Ekki var einu sinni reynt að athuga hvort að allt væri í lagi með stelpuna sem hundurinn glefsaði í.

Einhver kann kannski að spyrja hvort börnin hafi gert eitthvað til að æsa hundinn. Miðað við það sem mér hefur verið sagt þá gerðu börnin ekkert meira en þau gera venjulega þegar þau eru að leikja sér. Það fylgja því eðlilega stundum hávaði og læti, en það var ekkert umfram það sem eðlilegt getur talist.

Nú hef ég ekkert á móti hundum og hundahaldi, nema síður sé, en ef fólk getur ekki passað hundana sína betur en þetta, og getur heldur ekki horfst í augu við hvaða afleiðingar það getur haft að gera mistök, þá á það ekki að vera að eiga hund. En þetta gerir það kannski að verkum að maður skilur ákvæði í þeirri samþykkt sem ég fjallaði um í blaðinu, þar sem tekið var fram að bannað væri að halda hunda á fjölmennum samkomum, t.d. 17. júní. Hvað hefði þessi hundur gert undir slíkum kringumstæðum?

2 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?