<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Tónlistarleg uppgötvun - Haukur Morthens

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi íslenskrar tónlistar. Einhvern daginn þegar var að ramba um í tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar rakst í á endurútgáfa á geisladiski af plötu sem Haukur Morthens hafði gert með Mezzoforte 1981 að mig minnir og söng hann þar mörg frábær lög, sem flest voru eftir Jóhann Helgason. Platan heitir því skemmtilega nafni Lítið brölt. Ég tók þennan disk að láni og endaði á því að skrifa hann á tóman disk til að ég gæti notið hans seinna. Síðan eru liðin örfá ár og diskurinn hafði ekki ratað í spilarann hjá mér eftir það.

Undanfarna mánuði hef ég hins vegar verið í því eilífðarverkefni að fara í gegnum geisladiskasafnið á heimilinu og setja áheyrileg lög inn í fartölvuna mína, til að ég geti svo spilað það mér til dægrastyttingar meðan ég er að gera eitthvað annað í tölvunni. Ég var þarna búinn að fara í gegnum allt poppið og rokkið sem til var fyrir utan skrifuðu diskana. Og þá dúkkaði þessi diskur upp.

Ég henti disknum í tölvuna og lét hann rúlla í gegn. Og þvílík snilld. Þarna var flottur söngvari, flottir tónlistarmenn og flott lög, og mér fannst útkoman vera ótrúleg. Ég var í raun alveg rasandi hvað þetta er flottur diskur, með hverri perlunni á fætur annarri.

Flottasta lagið á þessum disk finnst mér vera lag Jóhanns við sálminn Við freistingum gæt þín. Að geta samið lag sem gæðir í raun ósköp venjulegan 200 ára gamlan sálm þessu lífi er mikill og stór hæfileiki. Fyrir utan það að laglínan er í sjálfu sér bæði einföld og áheyrileg passar hún svo vel við ljóðlínurnar og ýtir í raun og veru á glæsilegan hátt undir merkingu hans. Þá finnst mér innkoma saxafónsins í laginu vera punkturinn yfir i-ið í þessu lagi, kannski af því að ég lærði svo lengi á saxafón á sínum tíma, og þá m.a. undirhandleiðslu saxafónleikarans í þessu lagi, Kristins Svavarssonar.

Þó að menn séu kannski að átta sig betur á því í seinni tíð held ég einhvern veginn að Jóhann Helgason fái aldrei þá viðurkenningu sem hann á skilið yfir því hversu frábær lagasmiður hann er. Í mínum huga er hann ekkert síðri en t.d. Gunnar Þórðarson og Magnús Eiríksson.

2 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?