<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, september 11, 2005

Margir hafa komið að máli við mig...

Þessi setning hefur hljómað frá ansi mörgum nú í kjölfar þess sem allir héldu að yrði varaformannsslagur í Sjálfstæðisflokknum en verður greinilega ekkert slíkt. Spurning hvort að ég gæti notast við þessa setningu.

Margir (ok, reyndar bara tveir) hafa komið að máli við mig vegna síðustu færslu, þar sem ég tjáði þeim sem lesa vildu að ég hefði reiðst í fyrsta sinn í mörg ár. Greinilegt að þetta þykja mikil tíðindi :)

Þeim sem hefur verið annt um heilsu mína og velfarnað vegna þessarar færslu er þökkuð umhyggjan. Mér líður ágætlega núna og held bara mínu striki.

***

Rósa fór á fimmtudaginn til Kaupmannahafnar með mömmu sinni (hún bauð, hafði unnið eitthvað gjafabréf einhvern tíma) og við Líf höfum því verið ein í kotinu. Það hefur bara verið mjög ljúft. Á fimmtudagskvöld fórum við t.d. að sjá Annie í Austurbæ. Sú sýning kom satt að segja skemmtilega á óvart. Húmor fyrir alla fjölskylduna. Það eina sem fór í taugarnar á mér var ofleikur af hendi þeirrar sem lék Frú Karítas, gribbunnar sem stjórnaði munaðarleysingjahælinu. En sýningin í heild var hin skemmtilegasta. Mæli allavega með henni.

Við Líf höfum annars haft það mjög skemmtilegt og fórum m.a. í gönguferð á Ásfjallið í góða veðrinu í dag. Mér finnst útsýnið þaðan alltaf jafn magnað og maður getur líka nánast séð hvernig bærinn er að stækka.

***

Liverpoolblaðið er komið í prentsmiðjuna. Það er alltaf léttir þegar það er komið, en aldrei skal maður komast hjá því að þurfa að redda hlutum á síðustu stundu. Meiri vitleysan. Samt gott viðtal við Ray Clemence í blaðinu þó að ég segi sjálfur frá.

Jólablaðið á að vera 48 síður og það sem maður sér kannski helst ofsjónum yfir er að maður á kannski eftir að tala við mörg viðtalsefnin í blaðið þegar gamlar hetjur á borð við John Barnes, Jan Mölby og fleiri koma hingað til að spila á fótboltamóti í nóvember. Þó að það yrði auðvitað svakalega gaman ef af þeim viðtölum gæti orðið allsvakalegt að þurfa að vinna slík viðtöl á síðustu dögum fyrir "deadline" á sama tíma og það verður brjálað að gera í vinnunni í jólatörninni. En síðan rifja ég upp að á sama tíma í fyrra var ég að sjá um að koma saman Bændablaði þannig að fyrst ég gat það hlýt ég að geta þetta líka.

Vinnualki? Neinei, ekki ég!!

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?