<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 26, 2005

Langþráð

Er þetta eitthvað árstíðarbundið? Þetta gerðist líka á sama tíma í fyrra. Ég bloggaði lítið af því að ég tók að mér aukaverkefni þrátt fyrir að það væri brjálað að gera í minni aðalvinnu. Það skrítna við þetta aukaverkefni sem ég er að vinna núna er að enn er ekki komið endanlega á hreint hvort peningar fáist til verksins, þannig að ég er ennþá í limbói. Gríðarlega skemmtileg staða eða þannig.

***

En það var þetta með hina vinnuna. Þetta blað sem ég var að senda frá mér í morgun var óvenju erfitt af ýmsum ástæðum.

- Forseti Íslands kom í opinbera heimsókn til Hafnarfjarðar og ég eltist við hann frá því fyrir níu á föstudagsmorgun og fram yfir kl. 10 um kvöldið. Ótrúlega lýjandi að elta forsetann. Ég heyrði að hann færi aðeins í tvær svona heimsóknir innanlands á ári. Ég skil það vel eftir þennan dag.

- Hansadagar voru líka í Hafnarfirði um helgina og forsetinn tók einhvern þátt í þeim. Það þurfti að sinna því líka.

- Auglýsingasalan var óvenju dræm fyrir þetta blað og því þurfti ég að framleiða eins og ég ætti lífið að leysa. Það reyndar rættist úr þessari sölu á síðustu stundu í morgun.

- Allt þetta varð til þess að ég vann til hálf fjögur í nótt, og var svo auðvitað mættur aftur kl. átta í morgun. Er samt búinn að taka smá lúr í dag þannig að ég er ekki gjörsamlega útjaskaður.

***

Undarlegt atvik átti hins vegar stað í nótt, en eftir að ég settist inn í bíl eftir vinnutörnina í nótt sá ég að lítið bensín var á bílnum þannig að ég fór í ÓB til að taka bensín (og þið munið, klukkan var hálf fjögur um nóttina).

Ég var með geisladisk í græjunum í bílnum sem ég hafði dælt inn á nokkrum vel völdum lögum. Þennan stutta spöl frá vinnunni að ÓB hljómaði bítlalagið And I love Her í græjunum. Þegar ég er kominn að bensíntanknum stíg ég út úr bílnum og er þá hljóðkerfið á ÓB-stöðinni á hæsta styrk. Og hvaða lag haldið þið að hljómi þar? Jú, einmitt....And I Love Her með Bítlunum!

Mig rak eiginlega í rogastans við þetta. Gat verið að græjurnar mínar væru að senda frá sér einhvern merki? Ég hlustaði aftur í bílnum og heyrði að hann var kominn aðeins á undan bensínstöðinni með lagið. Ég setti því kortið í, tók svo bensíndæluna út og byrjaði að dæla. Heyrði ég þá að lagið Tragedy með Bee Gees byrjaði að hljóma í græjunum í bílnum. Ég fór að hugsa: Jæja, ef það kemur líka í hátalarakerfið á bensínstöðinni þá er eitthvað mjög undarlegt að gerast. Og hvað haldið þið? .... Það gerðist ekki, því annað bítlalag, Thing we said today, hljómaði í hátölurum ÓB. Ég andaði léttar.

Ég hafði reyndar ekki haft vitneskju um það að það væri svona mikið fjör á ÓB við Fjörð. Mér fannst allavega ekki slæmt að dæla á bílinn undir drynjandi bítlatónlist.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?