<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 14, 2005

Fjölmiðlar og konur

Ein frétr fjölmiðlanna í dag fjallaði um að konur kæmu mun minna fram í fjölmiðlum en karlar. Ýmsar kenningar virtust vera uppi um þetta en það var tvennt sem ég hjó sérstaklega eftir.

Ein kenningin var sú að það væri miklu meira fjallað um peninga og sjávarútveg, sem væru meiri karlastörf, heldur en hefðbundin kvennastörf. Mig minnir að einhver femínistaforsprakki hafi talað um þetta, án þess að ég þori nú alveg að fullyrða það. Ef svo er ætti það nú að vera fyrsta verk hjá þessari konu að hætta að draga fólk í dilka eftir karla- og kvennastörfum!

Mér hefur nú reyndar fundist að konur séu að verða meira áberandi í umfjöllun um peninga en þær eru það vissulega ekki í umfjöllun um sjávarútveg. En það er nú fjallað um ýmislegt annað í fjölmiðlum, t.d. pólitík, og þar eru margar konur áberandi. Þetta er því að ég held ekki nema hluti af skýringunni.

Þá koma líka fram sú kenning að fjölmiðlarnir væru bara að endurspegla þjóðfélag þar sem væri ójafnrétti milli kynja. Það er alveg möguleg skýring.

En af mínum störfum við fjölmiðla hef ég komist að einu sem ég held líka að geti skýrt þetta, og mér fannst ekki vera minnst á í þessu samhengi. Einhverra hluta vegna eru karla hreinlega meira fyrir athygli en konur. Þetta merkti ég t.d. þegar ég var í upphafi míns blaðamannaferils að taka spurningu dagsins fyrir DV, þar sem króa átti sex einstaklinga af og spyrja þá einhverrar spurningar. Það var algjör hending ef kona yfir fertugt var fáanleg til að taka þátt í þessu. Þetta hef ég líka reynt í ýmsu öðru sem ég hef þurft að gera í blaðamennsku. Þó að þetta sé alls ekki algilt þá er það samt ansi oft þannig að konur eru erfiðari viðmælendur en karlar ef þær eru hreinlega ekki í þannig stöðu að þær verði að tala við fjölmiðla.

Mér finnst því að konur verði svolítið að líta í eigin barm ef að þeim finnst þær ekki komast nógu mikið að hjá fjölmiðlum. Enda eru það helst þær sjálfar sem geta gert eitthvað í þessu.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?