<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, janúar 21, 2006

Framhaldið

Starfið mitt var auglýst í Víkurfréttum á fimmtudaginn. Í kjölfarið hafa nokkrir talað við mig og spurt hvort ég sé að hætta.

Og svarið er að ég er að hætta, allavega ekki seinna en í vor. Ég tók þá ákvörðun á haustmánuðum að leita mér markvisst að einhverju öðru í vor og hef verið í því síðustu vikur með bærilegum árangri.

Ástæða þess að ég ákvað að leita annað hefur ekkert með starfið sem slíkt að gera. Það hefur verið gríðarlega skemmtilegt að vinna við þetta blað, maður hefur kynnst fullt af frábæru fólki og jafnframt kynnst þessum þremur bæjarfélögum - Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi - á allt annan hátt en ég hefði annars gert. Starfið hefur því bæði verið skemmtilegt og lærdómsríkt.

Það stóð hins vegar aldrei til hjá mér að ílengjast þarna til langframa. Þetta var fyrsta fasta vinnan sem mér bauðst eftir að ég hætti störfum á DV haustið 2002 og ég ákvað að stökkva á hana. Mitt takmark var að festa þetta blað í sessi sem bæjarblað í þessum þremur sveitarfélögum og ég tel að það hafi tekist núna. Nú er það í verkahring arftaka míns að styrkja og efla blaðið enn frekar, sem og vefmiðilinn.

Hvað varðar framhaldið hjá mér ætti það endanlega að koma í ljós á næstunni en ég er þó nánast örugglega kominn með starf í sumar, sem greint verður frá hér þegar allt er orðið pottþétt. Svo verður bara séð til með framhaldið.

***

Ég vaknaði klukkan sjö í morgun - á laugardagsmorgni! Bara gat ekki sofnað aftur. Hvað er í gangi!!???

***

Já, og meðan ég man, það er ekkert barn komið ennþá. Gangsetning verður á fimmtudag ef ekkert hefur gerst þá.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?