<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 16, 2006

Eurovision, 2. hluti.

Þá eru það lögin sem eru komin í úrslit.

Sviss: Friðar-á-jörðu klisja sem ekkert er á bak við. Væmið og einhvern veginn líflaust.

Moldavía: Þeir sendu frumlegt lag síðast. En það er ekkert frumlegt, skemmtilegt eða líflegt við þetta lag. Þetta er bara algjör hörmung.

Ísrael: Hvurslags er þetta? Hætta lönd að leggja sig fram þegar þau komast beint í úrslit? Næstum því jafn mikil hörmung og Moldavía. Væmið og hundleiðinlegt.

Lettland: Þetta ku vera fyrsta lagið í sögu keppninnar sem sungið er án undirleiks. En þá er lágmark að menn haldi lagi og það gera menn alls ekki allan tímann. Það dregur þetta mikið niður. Lagið sjálft er líka ekkert spes.

Noregur: Ekkert ósvipað dæmi og með Svía. Frábær söngkona með lag sem er mjög þunnur þrettándi. Ef lagið nær einhverjum árangri verður það fyrst og fremst söngnum að þakka.

Spánn: Þær frægu Las Ketchup flytja lagið og það gæti alveg lyft því upp á hæsta stall. Lagið er líka alveg skítsæmilegt og mun njóta þess að vera fyrsta almennilega lagið í úrslitunum. Þó að mér finnist þetta ekki besta lagið í keppninni ætla ég að gerast svo djarfur að spá því sigri í keppninni.

Malta: Lagið er alveg sæmilegt og gæti mögulega gert ágæta hluti. Viðlagið er líka grípandi, sem hefur nokkuð að segja.

Þýskaland: Jájá menn skella sér bara í kántríið. Mér fannst kántrílagið í undankeppninni sem var með rapparanum betra en þetta lag. Vantar eitthvað upp á þetta.

Danmörk: Skemmtilegt afturhvarf til sjötta áratugarins. Ekkert frumlegt við þetta lag en ágætis skemmtun af því. Held samt að það sé of þunnt til að ná topp tíu.

Rúmenía: Lag sem maður er búinn að gleyma um leið og það er búið. Frekar slappt.

Grikkland: Óvenjulegt grískt framlag að því leyti að þeir hafa yfirleitt komið með keim af einhverju sem er einkennandi við gríska tónlist. Lagið er ágætt og verður eiginlega frábært þegar það kemst á flug. Þetta er samt ekki lag sem ég sé fyrir mér sem sigurlag.

Frakkland: Ferlega máttlaust lag og leiðinlegt.

Króatía: Stundum getur það verið góð hugmynd að blanda einhverju þjóðlegu við framlag sitt til Eurovision. Ekki í þessu tilviki. Þetta verður einn allsherjar hrærigrautur. Ekkert spes.

Í heild finnst mér lögin í ár ekki eins góð og í fyrra. Nokkrar perlur og nokkur skelfileg lög eins og gengur en það er óvenju mikið um meðalmennsku núna.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?