<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 15, 2006

Eurovision

Jæja, þá verða lögin greind þetta árið og kominn tími til.

Armenía: Þjóðlegur keimur af versunum, en viðlagið er hugmyndasnautt og engan veginn grípandi. Slefar rétt í meðallagi að gæðum.

Búlgaría: Algjörlega öfugt við Armeníu. Versin eru mjög auðgleymanleg og illa samin en viðlagið grípandi og góð söngkona gefur því vigt. Tilraunin seint í laginu til að gefa því einhvern þjóðlagakeim mistekst hins vegar gjörsamlega. Skítsæmilegt lag.

Slóvenía: Ég verð illa svikinn ef þetta lag kemst ekki í úrslitin. Góður söngvari, fínasta laglína og lagið með góðan takt og grípandi laglínu. Held að þetta lag lendi nokkuð ofarlega þó að ég eigi ekki von á því að það vinni keppnina.

Andorra: Í öllu myndbandinu beið ég eftir því að brjóstin myndu skoppa út úr kjólnum á söngkonunni. Reyndar notaði söngkonan það trikk sem breskar konur nota gjarnan, að flíka öllu til að leyna því hversu ljóta þær eru. En já, lagið, það er ekkert spes. Ekki kannski beint leiðinlegt, en alls ekki skemmtilegt heldur.

Hvíta-Rússland: Eightees glysrokk, enda þetta er ekki nærri því eins gott og hjá Wig Wam í fyrra. Samt þokkalegasta lag og þar sem ég er svolítið svag fyrir eightees glysrokki og held því að þetta fari áfram.

Albanía: Slæm vers, en ágætis viðlag. Gæti slefað í gegn í úrslitin en ég held samt að það vanti aðeins að komast á meira flug til þess.

Belgía: Ótrúlega grípandi lag og ef þetta kemst ekki í úrslitin er eitthvað mikið að. Allt sem þarf að prýða gott Eurovisionlag prýðir þetta lag.

Írland: Aumingja Írar! Hvað hefur komið fyrir þá eftir sigurgöngu síðasta áratugar? Ekki nóg með að lagið sé ömurlegt, heldur þarf það að koma á eftir frábæru belgísku lagi. Maður fer fram í eldhús og nær sér í meira nammi meðan þetta lag hljómar.

Kýpur: Nokkuð flott ballaða og ætti að mínu mati að komast áfram. Gallinn við lagið er kannski að það virðist kannski ekki almennilega vita hvert það stefnir og miðjan verður hálf kaótísk. En lagið er alveg ágætt.

Mónakó: Það er eitthvað sjarmerandi við þetta lag, þó að mér hafi reyndar á tímabili fundist þetta eitthvað stolið. En stelpan er sæt og sjarmerandi og syngur ágætlega, og lagið er alveg nothæft í keppnina.

Makedónía: Enn eitt lagið með ömurlegum versum en grípandi viðlagi. Þetta lag er samt ekki neitt neitt og virðist hafa verið hent saman í einhverjum flýti.

Pólland: Þetta er einhver undarlegasti hræringur sem ég hef séð. Rappari, rauðhærður maður með viskírödd (sem reyndar hefur tekið þátt áður) og íðilfögur söngkona. Mér fannst lagið lofa góðu á fyrstu tónunum en um leið og þessi hörmulegi rappari byrjaði var þetta dæmt til að mistakast. Seinni hlutinn er þó skárri en sá fyrri.

Rússland: Mjög gott og öflugt Eurovisionlag. Myndarlegur söngvari, sem syngur líka ágætlega. Svínvirkar og ætti að eiga greiða leið í úrslitin.

Tyrkland: Hrikalega hallærislegt lag, myndband og söngkona. Það er hins vegar kraftur í þessu og það gæti farið langt á því. Lagið er hins vegar eiginlega algjör hörmung.

Úkraína: Mér finnst eitthvað skemmtilegt við þetta lag. Grípandi, hresst og skemmtilegt. Eitthvað sem maður fær auðveldlega á heilann.

Finnland: Hvað er hægt að segja um þetta annað en algjör gargandi snilld? Finnarnir hljóta að fara nálægt því að slá met í árangri í Eurovision með þessu. Kröftugt rokk og bara helvíti fínt lag.

Holland: Þrjár mínútur af bongótrommum, óskiljanlegu tungumáli og mjög flatri laglínu. Ekki alveg minn tebolli þó að þetta sé vissulega hressilegt.

Litháen: Ætlar Litháum aldrei að takast að gera neitt almennilegt Eurovisionlag? Meira að segja þegar þeir syngja "we are the winners" tekst þeim ekki að sannfæra nokkurn mann um það. Ömurlegt!

Portúgal: Fjörugt en ófrumlegt. Stelpurnar fjórar virðast hafa fæðst tuttugu árum of seint auk þess sem þær kunna varla að syngja. Frekar skelfilegt.

Svíþjóð: Carola stendur náttúrulega alltaf fyrir sínu og er frábær söngkona. Lagið er hins vegar alls ekki gott. Í raun ekkert ósvipað og þegar Jónsi fór út fyrir okkur...hann gerði það sem hann gat við slæmt lag og það gerir Carola þarna líka. Spurning hvort það dugar hins vegar í úrslitin.

Eistland: Fínasta Eurovision-lag. Ekkert meistarastykki, en ágætis lag sem ætti að komast áfram í úrslitin.

Bosnía: Þó að lagið sem slíkt sé kannski ekkert slæmt er þetta ekki eitthvað sem menn komast langt með í Eurovision. Hefði sennilega notið sín betur á öðrum vettvangi.

Ísland: Og þá vandast málið. En því miður hef ég enga trú á að lagið komist áfram. Hinn almenni Evrópubúi fattar ekki þetta grín og þess vegna á þetta eftir að fara fyrir ofan garð og neðan hjá fólki. Lagið sem slíkt er líka ekki gott. En ég er auvitað ánægður með hvernig Silvíu Nótt hefur tekist að hrista upp í Eurovision-liðinu.

Tek svo fljótlega lögin sem komin eru í úrslitin.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?