<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 12, 2006

Bústaður

Síðustu dagar hafa verið bæði ljúfir og fullir af hasar.

Við fjölskyldan fórum í sumarbústað í Úthlíð í Biskupstungum um hvítasunnuhelgina ásamt tengdapabba og frú, auk þess sem bræður Rósu, Vignir og Rúnar, gistu eina nótt. Potturinn óspart notaður og ljúfa lífsins notið. Við fórum aftur í bæinn á mánudag þar sem ég var að vinna á þriðjudag og miðvikudag og ákváðum svo að fara aftur (bara við fjölskyldan) á miðvikudagskvöldið og vera fram á föstudag þar sem við vorum með bústaðinn á leigu í heila viku.

Ég var hins vegar kallaður í vinnu á mánudag þar sem talið var að það þyrfti aukamanneskju til að tékka á því hvað væri að gerast í Framsóknarflokknum. Rétt fyrir átta um kvöldið var svo tilkynnt um blaðamannafund á Þingvöllum klukkan níu þar sem menn þóttust vita að þar væri forsætisráðherra að tilkynna afsögn sína. Ég var því sendur þangað í snarhasti og var beint þaðan þegar útsending var rofin á Rás 1.

Ég var svo á vakt um helgina þegar tilkynnt var um nýja ríkisstjórn á laugardag og var í ati í kringum það líka. Það er ekki hægt að segja annað en að maður kunni að velja réttu dagana til að vinna :) Allavega leiðist manni alls ekki í vinnunni á þessum tímum.

***

Ég fékk annars aðra fréttamannamartröð í fyrrinótt. Ég var á fyrri innlendu vaktinni um helgina, sem þýddi að ég var mættur klukkan sjö um morguninn til að sjá um stuttu fréttatímana kl. 8, 9 og 10. Martröðin að þessu sinni var þannig að ég gleymdi að lesa fréttirnar kl. 8 og uppgötvaði það ekki fyrr en korter yfir átta. Í samræðum við hina þrautreyndu kollega mína kom í ljós að þeir höfðu reglulega fengið svona martraðir í byrjun síns ferils, en nú væru þær úr sögunni. Gott að vita af því.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?