<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 22, 2006

Anfield framundan

Nú laust fyrir kl. 17:30 sest ég upp í flugvél sem flýgur til Manchester. Ég mun hins vegar ekki dvelja í þeirri aumu borg lengur en nauðsynlegt er því tilgangurinn er að dvelja í Liverpool fram á mánudag og sjá Liverpool rústa Tottenham á Anfield á morgun.

Og ég er ekki einu sinni byrjaður að pakka. Mér líður bara alls ekki eins og ég sé að fara neitt. Enda er ég ekki búinn að fá farmiðann í hendur...fæ hann eftir hádegið.

Þetta verður áttunda skiptið sem ég fer á Anfield - og maður verður aldrei leiður á því.

***

Af hverju er allt í einu þögn núna um framtíð NFS? Það kom í fréttum í fyrradag að það yrði tilkynnt um uppsagnir í gær, en ekkert gerðist.

Ég vorkenni verulega þessu fólki sem vinnur þarna, einkum þar sem ég veit hvernig það er að vera í óvissu um starfið. Mér var sagt upp störfum þegar ég vann á DV á sínum tíma vorið 2002, fékk þau skilaboð að kannski myndi þetta allt verða dregið til baka en svo gerðist það ekki. Sá tími var í raun skelfilegt limbó og staða sem ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum.

Hvað sem gerist þá vona ég að það verði áfram öflug fréttaþjónusta á Stöð 2 eða NFS eða hvað þetta nú mun heita. Það er nefnilega ekkert varið í þennan bransa ef samkeppnin er ekki til staðar. Ég er líka mjög sammála G. Pétri þegar hann talar um hversu fáránlegt það er að barma sér undan samkeppninni við RÚV. Menn eiga að nýta samkeppnina til að gera betur, ekki til að væla.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?