<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, október 15, 2006

Afmæli

Í dag er Líf átta ára. Haldið var upp á það með bekkjar- og vinkonuafmæli á föstudaginn og ættingjaafmæli í dag. Það gekk prýðilega. Maður er smá lúinn eftir þetta afmælisstúss en það er bara eitt af því sem fylgir þessu. Nú verður maður að vísu að standa í þessu tvisvar á ári, ekki einu sinni, en það er bara gaman að því.

Það er samt erfitt að ímynda sér að þetta séu orðin átta ár. Að sjá eigið barn breytast frá kornabarni yfir í að verða persóna sem lærir að lesa, æfir handbolta og stundar tónlistarnám er ótrúlegt. Og úr því að mér finnst þetta svona ótrúlegt þá er óvíst hvernig ég verð þegar (og ef) börnin mín fara að útskrifast úr framhaldsskóla eða háskóla og fara að gera enn stærri hluti.

***

Aukalykill af Toyotunni er kominn í hús, loksins. Snillingarnir hjá Toyotu létu mig hins vegar hafa lykil með fjarstýringu þrátt fyrir að það sé ekkert fjarstýringarkerfi í bílnum. Traustvekjandi?

***

Og svo að maður segi nú aðra sögu. Starfsmaður Húsasmiðjunnar seldi Rósu fyrir skömmu Danfoss hitastilli í einn ofninn hjá okkur. Sagði að það væri ekkert mál að skipta um þetta og að ekki þyrfti að fá pípara til þess. Eftir smá tilraunir sem við hjónin gerðum (flestar af vankunnáttu því hvorugt okkar er sérlega handlagið) leyst okkur ekkert á blikuna og redduðum pípara í gegnum kunningja okkar. Þá kom ýmislegt í ljós um þennan snilling sem afgreiddi okkur í Húsasmiðjunni.

1. Það hefði verið stórhættulegt fyrir okkur að gera þetta án þess að hafa skúfað fyrir heita vatns inntakið inn í íbúðina.
2. Þrátt fyrir að starfsmaðurinn hafði bæði selt okkur hausinn, og það sem hann átti að fara á (held að það heiti kragi, þori samt ekki að sverja fyrir það) passaði það ekki saman.

Ég veit að það er erfitt að fá starfsfólk, en fyrr má nú vera.

***

Í gær varð ég fyrir nýrri lífsreynslu. Landsbjörg bauð fréttamönnum RÚV að kynna sér starfsemina. Ég vissi að í því átti að felast sigling með björgunarskipinu. Þegar út í bátinn var komið var tilkynnt að þeir sem vildu gætu fengið að fara í sjóinn í flotgalla og láta síðan bjarga sér. Þá kom upp tilfinning sem ég fæ oft við svona aðstæður - mig langar en eitthvað heldur aftur af mér.

Aðeins var hægt að taka tvo í einu, og þegar Arnar Páll Hauksson og Bogi Ágústsson riðu á vaðið gat ég ekki verið minni maður. Við Ingvar, pródúsent hjá Sjónvarpinu, urðum samferða, en þá þurftum við að hoppa af björgunarskipinu og yfir í gúmmíbát sem var skammt frá. Þetta var athyglisverð lífsreynsla. Það er ótrúlegt að vera í köldum sjó, en hvorki kólna né blotna. Það var að vísu átakð að koma sér í bátinn, og ég saup aðeins sjó, en fyrir utan það var þetta bara asskoti skemmtilegt.

En hér fékkst endanleg staðfesting á því hversu ótrúlegt starf er unnið þarna. Sú vinna sem sjálfboðaliðarnir leggja á sig er mögnuð og þetta starf á allan þann stuðning skilinn sem það getur fengið.

3 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?