<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 27, 2003

Annir og appelsínur
Já, ég hef verið slappur í blogginu síðan ég tók við nýja starfinu, enda á það hug minn allan og maður er í þessu vakinn og sofinn. Sem er alls ekki slæmt.
Leit inn á tvö þorrablót í gærkvöldi. Hið fyrra í Fjörukránni þar sem tveir hópar voru saman komnir og var stemningin þar í daufara lagi. Annað var upp á tengingnum í því síðara, hjá eldri borgurum í Hafnarfirði. Þar rambaði ég inn á fjöldasöng þar sem fólkið tók hressilega undir og ég ætlaði reyndar ekki að geta komist út úr salnum þar sem gamla fólkið var alveg brjálað í að láta taka myndir af sér. Ég átti alls ekki von á slíkum viðbrögðum en hafði jafnframt mjög gaman af þeim. Fólkið var í það minnsta í mjög góðu skapi.
Í dag kallaði vinnan líka og skrapp ég á Ásvelli til að fylgjast með nokkrum Haukamönnum sem voru að horfa á handboltann. Held að menn ættu ekkert að vera að svekkja sig yfir þessum úrslitum því að ég held að það hafi alltaf verið ljóst að Þjóðverjarnir væru betri en við. En stemningin að Ásvöllum var prýðileg og menn stukku upp og fögnuðu jafnframt því sem þeir bölsótuðust í dómurunum. Lúðvík bæjarstjóri var á meðal áhorfenda en var með þeim stilltari.
Ég er annars kominn vel í djobbið og er farinn að fíla mig vel. Manni finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað er mikið að gerast í þessum bæjarfélagi og það hefur reynst mun auðveldara að fá fréttir en ég hafði kannski ímyndað mér til að byrja með. En Hafnarfjörður er náttúrulega sér á báti eins og venjulega :)
Ég var annars að fá aðgang að Íslendingabók og brá heldur en ekki í brún þegar ég fletti sjálfum mér upp og sá að á mig væri skráð hálfsystir sem ég vissi ekki að ég ætti. Þetta var semsagt barn sem pabbi átti að hafa átt 1972. Þetta reyndust hins vegar vera mistök hjá Íslendingabók, sem mig svosem grunaði strax (ekki það að ég hefði haft neitt á móti því að eiga hálfsystur!).

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?