<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júlí 26, 2003

Kominn úr sveitasælunni

Jæja, þá er fríið mitt stutta að verða búið. Við fjölskyldan komum heim í gær eftir vikudvöl í sumarbústað Blaðamannafélags Íslands í Brekkuskógi. Þvílík afslöppun og frábært að það skuli vera kominn heitur pottur í þessa bústaði. Maður lá bara í leti, fékk fólk í heimsókn og drakk nokkra bjóra með því. Það eina sem við í raun og veru gerðum var að fara í sund í Reykholti. Frábær afslöppun og nú mætir maður endurnærður í vinnuna á mánudaginn. Reyndar mun ég aðeins sinna henni í dag þar sem ég ætla að kíkja á milljón dollara golfmót á Hvaleyrinni. Á samt ekki von á því að neinn hreppi þessa upphæð.

Þessir síðustu dagar hafa annars verið viðburðarsnauðir, enda bara legið í leti, drukkinn bjór og lesnar bækur. Ég las meðal annars nánast í einum rykk Napóleonsskjölin eftir Arnald Indriðason (hef verið spurður hvort ég sé eitthvað skyldur honum en get upplýst að svo er ekki). Frábær bók sem maður vildi alls ekki leggja frá sér, en þar sem bókin kom út 1999 vita aðdáendur Arnalds það nú þegar. Á örugglega eftir að verða mér út um fleiri bækur eftir hann.

Þjóðhátíðarhörmung

Er með útvarpið í gangi og þar var spiluð þessi hörmung sem menn vilja kalla þjóðhátíðarlagið í ár (þ.e. fyrir þjóðhátíð í Eyjum). Hvað eru menn að hugsa? Meira að segja Geirmundur gat samið skemmtilegrað þjóðhátíðarlag en þetta. Maður hefur það meira að segja á tilfinningunni að flytjendunum sjálfum finnist þetta lag leiðinlegt. Spái því að þessi þjóðhátíð verði sú mesta ládeiða sem sögur fara af...menn sofna yfir þessari hörmung ef menn verða ekki búnir að æla úr leiðindum áður.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?