<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 17, 2006

Liverpool og Idol

Sat á Players á þriðjudagskvöld og horfði á Liverpool vinna Arsenal. Þó að markið hafi komið seint voru yfirburðirnir algjörir og það hefði verið hrikalega ósanngjarnt ef við hefðum ekki tekið stigin þrjú.

Ég hef hins vegar sjaldan verið jafn pirraður yfir leik eins og þetta kvöld. Og það var ekki út af leiknum sjálfum heldur nöldurseggjunum sem sátu við borðið með mér. Það sem menn gátu ekki nöldrað yfir!

Fyrst þegar Gerrard klúðraði vítinu þá spurðu allir af hverju Fowler hefði ekki tekið vítið. Einmitt, maðurinn er ekki í leikæfingu, það hefði verið afar gáfulegt. Og líka svakalega gott fyrir sjálfstraustið í honum ef hann hefði klikkað. Fyrir utan það að það hefur verið yfirlýst stefna að ef Djibril Cissé er ekki inná þá tekur Gerrard vítin. Það er kannski spurning hvort að það mætti endurskoða þá ákvörðun, en það var hreinlega mjög skýr ástæða fyrir því að Gerrard tók þetta víti og engin ástæða til að víkja frá því.

Síðan: Hvað er Morientes að gera inná? Morientes er nefnilega að vinna heilmikla vinnu fram á við og er stöðugt að gera varnarmönnum lífið leitt. Þetta virðast menn bara ekki sjá. En auðvitað verður hann að skora meira til að hann geri það sem hann var keyptur til. Það urðu hins vegar allir brjálaðir yfir því að Fowler hafi verið tekinn útaf fyrir Cissé en ekki Morientes. En ástæðan var einfaldlega sú sem nefnd var að ofan - Fowler er ekki kominn í almennilegt form.

Síðan var allt brjálað þegar Alonso var tekinn útaf fyrir Hamann. Hvað er Benítez að hugsa? Við erum að reyna að koma inn marki og hann er inná með tvo varnartengiliði? Það var ekki laust við að menn yrðu vandræðalegir þegar í ljós kom að Alonso var tekinn út af þar sem hann kenndi sér meins á læri.

Luis García kemur svo inná 10 mínútum fyrir leikslok og þá kemur nöldrið: Þetta er alltof seint! Af hverju beið hann svona lengi með þessa skiptingu? Nú er Benítez alveg búinn að missa það. En hvað gerist? Varamennirnir tveir, Hamann og García, eiga sigurmarkið skuldlaust!

Nú er ég ekki að mæla því í mót að menn gagnrýni liðið. Ég var líka pirraður yfir því hvað færin nýttust illa hjá Morientes í þessum leik. Liverpool-liðið hafði hins vegar algjöra yfirburði í þessum leik og yfirspilaði Arsenal gjörsamlega. Samt geta menn nöldrað. Þetta er ofboðslega pirrandi.

Ég lærði þá lexíu fyrir nokkrum árum að í þessum efnum er betra að bíða með það að vera með einhver stór orð gagnvart einstökum leikmanni eða frammistöðu liðs. Þetta er hreinlega skýrt dæmi um það.

***

Idolið á föstudaginn var þótti slappt, og var það að ýmsu leyti. Ég hef hins vegar verið að velta því fyrir mér hvort tónlistarstjórnunin eigi einhvern þátt í því.

Þemað í Idolinu voru lög frá fæðingarári keppenda. Það kom hins vegar fram í máli eins þeirra að þeir hefðu aðeins getað valið milli 6-7 laga. Það mátti sjá þetta á lagavalinu því mörg laganna voru bæði þannig að þau hentuðu ekki viðkomandi keppendum og reyndu heldur ekki það mikið á röddina. Ína og Elva Björk fengu lög sem reyndu á og skiluðu þeim vel, enda buðu lögin upp á það. Hin lögin gerðu það hins vegar ekki. Hvað átti það að þýða, fyrst menn voru með svona þema, að bjóða ekki upp á breiðara lagaúrval?

Það verður væntanlega annað uppi á tengingnum í diskóinu í kvöld.

***

Sif er þriggja vikna í dag. Rúm vika eftir af fæðingarorlofinu, þ.e. þeim hluta sem ég tek núna. Svakalega líður þetta fljótt.

0 comments

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Mistök

Úff, hvað það hefur verið erfitt að vera Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á sunnudagskvöld? Hún í beinni á NFS að segja frá úrslitunum í prófkjöri Samfylkingarinnar, og þegar búið er að lesa upp tölurnar þar sem Dagur varð í efsta sæti gengur hún beint að Steinunni Valdísi og spyr hvernig það sé að vera sigurvegari prófkjörsins! Þóra Kristín virtist þarna ekki hafa áttað sig á því að tölurnar sem nefndar voru í kjölfar nafns Steinunnar voru fyrir 1. og 2. sætið en ekki það fyrsta eingöngu.

Ég vorkenndi allavega Þóru Kristínu alveg hrikalega þegar ég sá þetta og gæti ímyndað mér að hún hefði helst viljað hverfa niður úr gólfinu þegar hún áttaði sig á þessu. Sorglegt fyrir hana því Þóra Kristín er nefnilega prýðilegur fréttamaður.

En það getur allt gerst í beinni útsendingu!

1 comments

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Sif heitir daman

Þá er formlega búið að staðfesta nafnið á barninu, sem heitir Sif. Skírnin fór fram í gær heima og tókst frábærlega. Einar Fríkirkjuprestur var hins vegar vant við látinn en hinn presturinn, Sigríður, leysti hann af hólmi og gerði það frábærlega. Gott að kirkjan sé svona lánsöm með presta sína.

Það merkilega er hins vegar hvernig Sif brást við öllum tilstandinu. Í þeim skírnum sem ég hef farið á hafa krakkarnir yfirleitt farið að öskra einhvern tímann meðan á athöfninni stendur þannig að varla skilst orð af því sem presturinn segir. Þær skírnir eiga það reyndar allar sameiginlegt að hafa farið fram í kirkjum. Sif var hins vegar ekki að kippa sér mikið upp við þetta. Ég hélt fyrst á henni meða presturinn flutti sinn hefðbundna boðskap og þá dottaði hún í fanginu á mér. Líf hélt svo á henni undir skírninni sjálfri og þá rétt rumskaði hún en var svo aftur farin að dotta þegar athöfninni lauk. Ég held að skýringuna sé að leita í því að skírnin hafi farið fram heima og því ekki sama stressið í kringum hana eins og annars hefði verið. Presturinn sagði það líka að þetta væri orðið sífellt algengara og það skil ég ósköp vel eftir þetta reynslu.

Annars dafnar hún ágætlega og þyngdist m.a. um 350 grömm í síðustu viku. Enda dugleg að drekka eins og ég minntist áður á.

***

24 er aftur byrjað í sjónvarpinu. Nú telur maður niður að næsta sunnudagskvöldi, enda eru þetta mestu snilldarþættir sem gerðir hafa verið.

***

Pókerkvöld var haldið á föstudagskvöldið. Ég var óvenju rólegur í áfenginu miðað við önnur kvöld vegna skírnarinnar í gær. Kvöldið var haldið heima hjá Jóa og braut hann þá reglu að gestgjafinn tapaði alltaf því að eftir kvöldið voru allir í mínus nema hann. Verst er að það er sennilega eitthvað í það að maður getur sjálfur haldið svona kvöld...Sif þarf allavega að stækka eitthvað áður en það getur gerst.

***

Liverpool vann Wigan í gær. Vonandi kemur þessi sigur sjálfstrausti í liðið...ætti allavega að vera gott veganesti fyrir leikinn gegn Arsenal á þriðjudaginn.

2 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?