<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 27, 2005

Piparsveinninn

Þar sem ég hafði ekkert betra að gera ákvað ég að horfa á piparsveinaþáttinn (get ekki notað ensku slettuna sem þeir eru að nota). Ég horfði á fyrsta þáttinn og fékk eiginlega nóg þar sem ég get ekki þolað þegar hlutirnir eru teygðir út í það óendanlega eins og gert var þá. Mikil umræða hefur hins vegar orðið um þessa þætti þannig að ég varð að horfa á einn af forvitni. Kannski í og með líka vegna þess að ég hef alltaf fylgst vel með bandarísku þáttunum á Skjá einum.

En ég held að það sé alveg ljóst að ég mun ekki fara að hliðra neinu til til að fara að horfa á þennan þátt aftur. Það er hreinlega eins og að ákveðna fagmennsku vanti í þetta hjá Skjá einum, því þegar Stöð 2 hefur tekið upp íslenska útgáfu af erlendum þáttum eins og Idol og Viltu vinna milljón hefur það gengið vel. Þessi tilraun Skjás eins á þessu sviði er hins vegar ekki að ganga upp.

Nú er það þannig að þessir þættir snúast mjög mikið um að piparsveinninn sé spennandi sjónvarpsefni. Þessi piparsveinn er það hins vegar alls ekki. Hann virkar einstaklega flatur og óspennandi og fátt við hann sem laðar mann að þættinum. Þá finnst mér sviðsmyndin líka klúðursleg og staðurinn þar sem rósaafhendingin fer fram virka eins og að hann fari fram í pínulítilli skonsu. Það virkar ekki traustvekjandi.

Þá er umsjónarmaðurinn ekki nógu góður. Það er auðvitað ekki vandræðalaust að stjórna svona þætti en þetta finnst mér hreinlega ekki vera að virka.

0 comments

miðvikudagur, október 26, 2005

Langþráð

Er þetta eitthvað árstíðarbundið? Þetta gerðist líka á sama tíma í fyrra. Ég bloggaði lítið af því að ég tók að mér aukaverkefni þrátt fyrir að það væri brjálað að gera í minni aðalvinnu. Það skrítna við þetta aukaverkefni sem ég er að vinna núna er að enn er ekki komið endanlega á hreint hvort peningar fáist til verksins, þannig að ég er ennþá í limbói. Gríðarlega skemmtileg staða eða þannig.

***

En það var þetta með hina vinnuna. Þetta blað sem ég var að senda frá mér í morgun var óvenju erfitt af ýmsum ástæðum.

- Forseti Íslands kom í opinbera heimsókn til Hafnarfjarðar og ég eltist við hann frá því fyrir níu á föstudagsmorgun og fram yfir kl. 10 um kvöldið. Ótrúlega lýjandi að elta forsetann. Ég heyrði að hann færi aðeins í tvær svona heimsóknir innanlands á ári. Ég skil það vel eftir þennan dag.

- Hansadagar voru líka í Hafnarfirði um helgina og forsetinn tók einhvern þátt í þeim. Það þurfti að sinna því líka.

- Auglýsingasalan var óvenju dræm fyrir þetta blað og því þurfti ég að framleiða eins og ég ætti lífið að leysa. Það reyndar rættist úr þessari sölu á síðustu stundu í morgun.

- Allt þetta varð til þess að ég vann til hálf fjögur í nótt, og var svo auðvitað mættur aftur kl. átta í morgun. Er samt búinn að taka smá lúr í dag þannig að ég er ekki gjörsamlega útjaskaður.

***

Undarlegt atvik átti hins vegar stað í nótt, en eftir að ég settist inn í bíl eftir vinnutörnina í nótt sá ég að lítið bensín var á bílnum þannig að ég fór í ÓB til að taka bensín (og þið munið, klukkan var hálf fjögur um nóttina).

Ég var með geisladisk í græjunum í bílnum sem ég hafði dælt inn á nokkrum vel völdum lögum. Þennan stutta spöl frá vinnunni að ÓB hljómaði bítlalagið And I love Her í græjunum. Þegar ég er kominn að bensíntanknum stíg ég út úr bílnum og er þá hljóðkerfið á ÓB-stöðinni á hæsta styrk. Og hvaða lag haldið þið að hljómi þar? Jú, einmitt....And I Love Her með Bítlunum!

Mig rak eiginlega í rogastans við þetta. Gat verið að græjurnar mínar væru að senda frá sér einhvern merki? Ég hlustaði aftur í bílnum og heyrði að hann var kominn aðeins á undan bensínstöðinni með lagið. Ég setti því kortið í, tók svo bensíndæluna út og byrjaði að dæla. Heyrði ég þá að lagið Tragedy með Bee Gees byrjaði að hljóma í græjunum í bílnum. Ég fór að hugsa: Jæja, ef það kemur líka í hátalarakerfið á bensínstöðinni þá er eitthvað mjög undarlegt að gerast. Og hvað haldið þið? .... Það gerðist ekki, því annað bítlalag, Thing we said today, hljómaði í hátölurum ÓB. Ég andaði léttar.

Ég hafði reyndar ekki haft vitneskju um það að það væri svona mikið fjör á ÓB við Fjörð. Mér fannst allavega ekki slæmt að dæla á bílinn undir drynjandi bítlatónlist.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?