<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 12, 2006

Stöð 2 og Sýn - framhald

Við Rósa sendum þennan tölvupóst til Stöðvar 2 (eða 365 eða hvað þetta nú heitir) í kvöld. Aðallega til þess að viðhalda því prinsippi að þegja ekki yfir óánægju sinni. Spurning hvort einhver viðbrögð verða við þessu.

-----

Góðan daginn.

Erindi okkar með þessum tölvupósti er að lýsa yfir megnri óánægju með viðskiptahætti ykkar hjá 365-ljósvakamiðlum þar sem lítið virðist gert úr þeirri tryggð sem við höfum sýnt fyrirtækinu sem viðskiptavinir til margra ára.

Við hjónin gerðust áskrifendur að Stöð 2 um það leyti sem við byrjuðum í sambúð í ágúst 1997. Áskrift okkar var óslitin þangað til nú í júní. Við gerðumst svo áskrifendur af Sýn fyrir um einu og hálfu ári síðan. Svo að allar staðreyndir séu uppi á borðinu var það ætlun okkar að segja upp Sýn að lokinni heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu þar sem áhorfið á stöðina hefur ekki verið það mikið á heimilinu upp á síðkastið.

Sýn var inni á greiðsluseðli frá ykkur í maí, sem við greiddum. Þegar seðillinn barst fyrir júnímánuð var Sýn hins vegar ekki inni á honum. Þegar grenslast var fyrir um ástæður þess var okkur sagt að til þess að við gætum verið áskrifendur í júní þyrftum við annaðhvort að skuldbinda okkur til að vera áskrifendur í þrjá mánuði eða borga mun hærra mánaðargjald fyrir júní. Þetta finnst okkur frekleg leið til þess að neyða mann til að borga fyrir eitthvað sem hann vill ekki, og slíkt látum við ekki yfir okkur ganga. Fyrir fjórum árum var hægt að kaupa áskrift af Sýn meðan á HM stóð á góðu verði og skyldum við það þá þannig að þar sem við værum með Stöð 2 líka væri þetta mögulegt. En greinilegt er að önnur sjónarmið ríkja nú en fyrir fjórum árum.

Þetta varð til þess að við ákváðum að greiða ekki greiðsluseðilinn og hætta þar með áskrift af Stöð 2. Okkur er misboðið með þessum viðskiptaháttum og finnst ekki rétt að menn komist upp með slíkar þvingunaraðgerðir. Okkur finnst þetta jafnframt lítilsvirðing við okkur sem viðskiptavini sem höfum haldið tryggð við fyrirtækið í tæp níu ár, og þó að við séum kannski ekki stór þáttur í bókhaldi fyrirtækisins þá erum við þó hluti af þeim viðskiptavinum sem halda þessu fyrirtæki gangandi.

Virðingarfyllst,
Hallgrímur Indriðason
Rósa Lyng Svavarsdóttir
Þrastarási 71
221 Hafnarfjörður

0 comments
Bústaður

Síðustu dagar hafa verið bæði ljúfir og fullir af hasar.

Við fjölskyldan fórum í sumarbústað í Úthlíð í Biskupstungum um hvítasunnuhelgina ásamt tengdapabba og frú, auk þess sem bræður Rósu, Vignir og Rúnar, gistu eina nótt. Potturinn óspart notaður og ljúfa lífsins notið. Við fórum aftur í bæinn á mánudag þar sem ég var að vinna á þriðjudag og miðvikudag og ákváðum svo að fara aftur (bara við fjölskyldan) á miðvikudagskvöldið og vera fram á föstudag þar sem við vorum með bústaðinn á leigu í heila viku.

Ég var hins vegar kallaður í vinnu á mánudag þar sem talið var að það þyrfti aukamanneskju til að tékka á því hvað væri að gerast í Framsóknarflokknum. Rétt fyrir átta um kvöldið var svo tilkynnt um blaðamannafund á Þingvöllum klukkan níu þar sem menn þóttust vita að þar væri forsætisráðherra að tilkynna afsögn sína. Ég var því sendur þangað í snarhasti og var beint þaðan þegar útsending var rofin á Rás 1.

Ég var svo á vakt um helgina þegar tilkynnt var um nýja ríkisstjórn á laugardag og var í ati í kringum það líka. Það er ekki hægt að segja annað en að maður kunni að velja réttu dagana til að vinna :) Allavega leiðist manni alls ekki í vinnunni á þessum tímum.

***

Ég fékk annars aðra fréttamannamartröð í fyrrinótt. Ég var á fyrri innlendu vaktinni um helgina, sem þýddi að ég var mættur klukkan sjö um morguninn til að sjá um stuttu fréttatímana kl. 8, 9 og 10. Martröðin að þessu sinni var þannig að ég gleymdi að lesa fréttirnar kl. 8 og uppgötvaði það ekki fyrr en korter yfir átta. Í samræðum við hina þrautreyndu kollega mína kom í ljós að þeir höfðu reglulega fengið svona martraðir í byrjun síns ferils, en nú væru þær úr sögunni. Gott að vita af því.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?