<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Meira Eurovision

Já, meira málið sem komið er upp núna vegna Eurovision. Verð aðeins að reifa það á þessum vettvangi.

Ég er nokkuð beggja blands um málið. Kæruferlið finnst mér reyndar hafa gengið alltof langt og ekki til annars fallið en að stuðla enn frekar að því að Silvía Nótt vinni forkeppnina, sem varla getur verið tilgangurinn með kærunni. Mér fannst Palli Magg komast vel frá Kastljósinu í gær og gaf greinargóðar skýringar á þessari afgreiðslu sinni. Kristján Hreinsson virðist fara áfram á þrjóskunni einni saman, en reyndar fullyrti hann í þættinum að stór hluti lagahöfundanna hefði hugleitt að draga lög sín úr keppni. Það finnst mér hreint út sagt heimskulegt ef satt er.

Mér fannst lag Silvíu Nóttar hins vegar ekkert sérstakt þegar ég heyrði það fyrir keppnina. En miðað við hin lögin sem flutt voru á laugardaginn er þetta snilldarlag því þessi lög voru hvert öðru leiðinlegri. Þau illskástu komust áfram.

Ég er semsagt enn á því að lagið Andvaka sem Guðrún Árný syngur sé besta lagið í keppninni og eigi þess vegna að fara. Ég myndi hins vegar ekki hafa neina verki með því að Silvía Nótt færi út. Svona furðufuglar hafa oft náð prýðilegum árangri í keppninni og ég efast ekki um að hún gæti náð langt á þeim forsendum líka.

***

Ég hef líka lítið talað um EM í handbolta og allt það havarí sem fylgdi því. Það verður að koma því aðeins inn líka.

Mér finnst það hrikalegt klúður ef að þreyta hafi orðið okkur að falli gegn Norðmönnum. Það var gott tækifæri til að hvíla menn gegn Ungverjum og það hefði átt að nýta betur. En að öðru leyti get ég ekki séð að það sé hægt að gagnrýna Viggó mikið. Sendingaklúðrið gegn Króötum í lok leiksins þegar við vorum tveimur fleiri var hrikalegt og sorglegt að við skyldum ekki nýta það tækifæri betur.

Ég heyrði Guðmund Guðmundsson gagnrýna liðsvalið hjá þjálfaranum. Talaði m.a. um að óþarfi hefði verið að fara með þrjá markverði og líka óþarfi að fara með þrjá línumenn. Þessi gagnrýni finnst mér skrýtin á þessum tímapunkti...það heyrði ekkert slíkt fyrir mótið. Það voru valdir þrír markmenn af því að Roland var tæpur en klárlega betri kostur en Hreiðar ef að hann væri heill. Þriðji línumaðurinn, Vignir, var valinn sem varnarmaður en ekki sem línumaður...það hefði t.d. verið hægt að gagnrýna Guðmund fyrir að velja of margar rétthentar skyttur af því að Rúnar Sigtryggsson var í liðinu. Afar slöpp gagnrýni.

Meiðslin settu að sjálfsögðu strik í reikninginn. Garcia fyrir mótið, Baldvin Þorsteinsson veiktist en í honum hefðum við verið með mjög góðan mann til að leysa Guðjón Val af. Svo megum við einfaldlega ekki við því að menn á borð við Alexander og Einar meiðist.

Ég er allavega sáttur við það sem Viggó var að gera og vona að HSÍ geti samið við hann áfram. Forsendur fyrir uppsögninni eru hins vegar hæpnar, annars vegar samningurinn (sem hann hlýtur að hafa samþykkt sjálfur á sínum tíma) og hins vegar gagnrýni á hans störf, sem maður í hans stöðu verður hreinlega að geta þolað auk þess sem hann hefur nú sjálfur verið manna duglegastur við að gagnrýna hitt og þetta. En vonandi leysist þetta vel á næstu dögum eða vikum.

***

Og meðan ég man, það hefur ekkert lið farið meira í taugarnar á mér nokkurn tíma heldur en Chelsea. Ég er gjörsamlega búinn að missa allt álit á Arjen Robben. Og ekki bara út af því að hann hálsbrotnaði næstum því þegar Reina klappaði honum, heldur af því að hann var búinn að vera sívælandi út í dómara allan leikinn án þess að fá spjald fyrir tuðið.

Ég var heldur ekki hrifinn af Eið Smára. Hann lá eins og hann hefði verið skotinn eftir tæklingu Reina, sem ég gat ekki betur séð en að væri lögleg þar sem hann fór klárlega í boltann fyrst. Síðan sprangar hann um eins og ekkert væri að honum!

Það er ekkert sem fer meira í taugarnar á mér í fótbolta en leikaraskapur, sama hver á í hlut.

2 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?