<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 09, 2004

Bjartir dagar

Nú eru bjartir dagar, bæði í veðrinu og einnig í lista- og menningarhátíðinni Bjartir dagar, sem hefst í Hafnarfirði á laugardag. Ég verð væntanlega á útopnu meðan á þessari hátíð stendur við að mynda hina og þessa viðburði. Í þokkabót hefst EM líka á laugardaginn. Ætli maður hafi tíma fyrir eitthvað fjölskyldulíf? Það kemur í ljós.

Forseti vor

Já, nú hefur forsetinn ákveðið að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Þetta kom mér á óvart, því að ég hafði einhvern veginn komist að þeirri niðurstöðu að honum væri ekki stætt á öðru en að skrifa undir lögin, miðað við þau mál sem hann hafði áður staðfest. Þó að ég sé á móti þessum lögum þá er ég ekki sammála þessari ákvörðun forsetans, einfaldlega vegna þess að mér finnst hann ekki samkvæmur sjálfum sér í beitingu þessa ákvæðis.

Ég er hins vegar sammála rökunum á bak við þessa ákvörðun. Þarna er greinilegt að meirihluti þingsins er að fara á skjön við vilja þjóðarinnar og í slíkum tilvikum á forsetinn að grípa inn í. En af hverju gerði hann það þá ekki líka í öryrkjamálinu, sem er í raun stærra mál en þetta? Það finnst mér fyrst og fremst aðfinnsluvert við það sem forsetinn er að gera.

En umræðan í kjölfarið hefur ekki verið gáfulegri og stjórnarherrarnir sýna það enn og aftur að þeir eru búnir að vera of lengi við völd. Talað er um einhver 75% þátttökumörk og vísað í flugvallarmálið, sem er algjörlega fáránlegt og þýðir að menn greinilega nota þau rök sem henta þeim hverju sinni. Síðan er fundi með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna slitið þegar á að ræða þessi mál meðal þeirra. Afar vont, þó ekki væri nema taktískt fyrir stjórnarmeirihlutann.

En nú verður þjóðaratkvæðagreiðsla, og það verður gaman að taka þátt í slíku. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður úr ef lögin verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég er nokkuð viss um að muni gerast. Vonandi reyna menn þá að taka sér þann tíma sem er nauðsynlegur til að ná sátt um lagasetningu af þessu tagi, sem er vissulega nauðsynleg.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?