<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Fótbolti

Eins og fram hefur komið á þessari síðu er ég í innanhússfótbolta einu sinni í viku. Mér hefur alltaf fundist það há mér í boltanum hvað ég var með slakt úthald. Maður var ansi oft alveg búinn um miðjan tímann.

Í vor byrjaði ég svo í líkamsrækt, aðallega til þess að auka úthaldið. Ég hef verið þokkalega duglegur að fara og púlað mikið, og fengið mikið út úr því.

Ég finn greinilega að ég hef betra úthald í fótboltanum. En það er eins og mér finnist ég líka eitthvað latari við að hlaupa. Veit ekki alveg hvernig á þessu stendur - kannski er þetta bara í hausnum á mér.

Svo er að vísu alltaf hægt að nota afsökunina með skóna. Semsagt, ég er búinn að vera á hálfónýtum skóm í sumar. Í tímanum í gær notaði ég nýja skó, sem varð til þess að ég var kominn með hælsæri um miðjan tímann - og átti skelfilegan leik.

Ég á örugglega eftir að eiga leik lífs míns þegar skórnir eru farnir að laga sig að löppinni á mér.

***

Sif á erfitt þessa dagana. Hún er að taka tennur og það fer illa í hana. Það fossar af slefi úr munninum á henni og það má ekkert koma við góminn. Ég hélt að því fyrr sem börnin byrjuðu að taka tennur, því auðveldara væri það fyrir þau, en Líf fékk sína fyrstu tönn átta mánaða og það fór ekki svona illa í hana. Ein tönn er komin hjá Sif og þær verða væntanlega fleiri fljótlega miðað við hvernig henni líður.

***

Ólafur Teitur Guðnason sér vinstri sveiflu í hverju horni, ef marka má nýjasta fjölmiðlapistil hans. Það er þó nýtt að hann tali um vinstri sveiflu út frá því í hvaða röð fréttirnar eru í fréttatímum. Ég hlakka til þegar Ólafur Teitur fer að sjá hægri sveiflu í fjölmiðlum - eða kannski er það ekkert tilhlökkunarefni.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?