<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júní 02, 2006

365

Er ekki sáttur við 365 þessa dagana og eru allar líkur á því núna að við hjónin segjum upp Stöð 2.

Þannig er að við erum búin að vera áskrifendur af Stöð 2 í níu ár og ég hef tekið Sýn í eitt og hálft ár. Hef reyndar efast aðeins um þá ráðstöfun, þar sem ég hef ekki horft sérstaklega mikið á þá stöð. Til að gæta allrar sanngirni skal þess getið að vinnuveitandi minn borgaði fyrir mig Stöð 2 og Sýn sem hluta af kjörum mínum þar. En það er önnur saga.

Ég hrósaði happi yfir því að vera með Sýn fyrir nokkrum mánuðum þegar ég frétti af HM-tilboði Sýnar, þar sem borga þurfti um 13 þúsund kall ef maður ætlaði að vera með Sýn á HM. Rökin fyrir því voru þau að verðlauna ætti trygga áskrifendur. Ég taldi því að ég ætti bara að borga venjulegt mánaðargjald fyrir júní, en planið hjá mér var að segja Sýn upp eftir HM, þar sem ég horfi ekki sérstaklega mikið á þá stöð.

Þegar greiðsluseðill kom frá 365 tók ég eftir því að Sýn var ekki á honum. Þegar ég grenslaðist fyrir um það kom það í ljós, að ef ég ætlaði að vera með Sýn í júní, þyrfti ég að skuldbinda mig í sex mánaða áskrift!

Þetta er ég afar ósáttur við, og ég hreinlega skil ekki þessa viðskiptahætti. Mér finnst þetta satt að segja ekki mikil umbun fyrir níu ára trygg viðskipti við þetta fyrirtæki. Með þessu eru þeir eingöngu að fækka í þeim hópi sem eiga þess kost að sjá HM, því að það munu færri kaupa áskrift undir þessum skilmálum. Ég hefði haldið að það væri betra að hafa verðið aðeins lægra til að fleiri keyptu áskriftina, en þeir sem reka þetta fyrirtæki hafa greinilega aðrar hugmyndir.

Þetta hefur einnig orðið til þess að ég er nánast búinn að ákveða að segja upp Stöð 2. Það eina sem við hjónin höfum horft á þar sem er í læstri dagskrá er Greys Anatomy (Rósa) og 24 (ég). Og það er eiginlega of mikill peningur að borga yfir fjögur þúsund kall bara fyrir þessa tvo þætti. Það er reyndar aldrei að vita hvað við gerum í vetur, þegar Idolið byrjar aftur því það var alltaf mikil fjölskyldustund. En það verður bara að koma í ljós. En ef ég geri það, verður það með óbragði í munninum.

***

Fór í dag á setningarhátíð Bjartra daga í Hafnarfirði, þar sem Líf var að spila þar á flautu með flautukór Áslandsskóla. Stórglæsilegt hjá minni eins og hennar er von og vísa. Þar hitti ég marga sem ég hafði verið í samskiptum við í gegnum starf mitt hjá Víkurfréttum og var þar um margt að spjalla. Mér leið hins vegar undarlega yfir því að vera á viðburði í Hafnarfirði án þess að þurfa að mynda hann. Það vakti hins vegar athygli mína að Fjarðarpósturinn hafi ekki séð ástæðutil að sinna þessu á meðan arftaki minn hjá Víkurfréttum var mættur með myndavélina. Sýnir þetta bara ekki svart á hvítu hvort blaðið er alvöru bæjarblað?

0 comments

sunnudagur, maí 28, 2006

Kosningar

Á föstudagskvöldið var ég búinn að skrifa langa bloggfærslu með greiningu á boðskap sem fluttur var í blöðum sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið að dreifa síðustu daga og vikur. Sú færsla hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar ég var að verða búinn með hana. Þetta er í þriðja sinn sem ég reyni að blogga um pólitík - og í öll skiptin hefur þetta gerst. Það er greinilegt að æðri máttarvöld eru að reyna að segja mér eitthvað!

En allavega var ég að vinna þó nokkuð um þessar kosningar. Mitt hlutverk átti upphaflega að vera að aðstoða Arnar Pál Hauksson sem stjórnaði útsendingunni á kosningavöku Útvarpsins. Á kosningakvöldinu kom það hins vegar skyndilega upp að ég þurfti að sjá um kosningaþáttinn á Rás 1 í dag ásamt Pálma Jónassyni vegna veikina þess sem átti upphaflega að vera með honum í því. Ég var því að vinna til eitt á kosninganóttina og var svo mættur aftur klukkan níu í morgun til að undirbúa þáttinn, sem fór í loftið kl. 13.

Mér fannst mjög skemmtilegt að stúdera þessi úrslit. Ég tók að mér að fara í gegnum Reykjavík og sveitarfélögin á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Mér fannst sérstaklega gaman að skoða þessi minni sveitarfélög, þar sem mörg framboð með skemmtilegum nöfnum eru á ferðinni, auk þess sem pólitískt landslag þeirra er afar misjafnt.

En aldrei hefði mig órað fyrir þessum úrslitum í Hafnarfirði. Ég átti alveg eins von á því að Vinstri grænir næðu inn manni, en að þeir gerðu það á kostnað fjórða mann Sjálfstæðisflokksins var eitthvað sem ég reiknaði aldrei með. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er að bíða algjört afhroð í þessum kosningum og þeir þurfa að fara í verulega naflaskoðun eftir þessi úrslit. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé sérstaklega gott fyrir Samfylkinguna að fá sjöunda manninn inn. Þeir gætu orðið of öruggir með sig í ýmsum málum, sem hefur komið mörgum í koll. Innkoma vinstri grænna gerir það svo örugglega að verkum að bæjarstjórnarfundirnir verða fjörugri en áður!

Hvaða meirihlutaviðræðum ætli ég þurfi að fylgjast með í vinnunni á morgun?

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?