föstudagur, ágúst 20, 2004
Viðburðarríkt
Já, vika liðin frá síðasta bloggi en ýmislegt samt gerst. Fyrst frábær helgi í Borgarfirðinum í bústað sem Jói var með á leigu. Hann bauð mér, Rósu, Líf, Jóni Heiðari, Hallveigu og Ragnheiði Dóru dóttur þeirra að vera um helgina og var það þegið. Bongóblíða allan tímann, pottur óspart notaður sem var svo tæknilegur að maður þorði varla að snerta á honum, ein stutt gönguferð (stutt af því að við Jói þurftum að horfa á Tottenham-Liverpool) og smá sjónvarpsgláp (fótbolti og handbolti). Þess á milli var börnunum sinnt, en það þurfti nú reyndar lítið því Líf og Ragnheiður Dóra voru mjög góðar að leika sér saman. Við fengum okkur svo ís á Akranesi á sunnudeginum á leiðinni heim. Takk fyrir okkur, Jói, þetta var svakalega ljúft! Leikur Tottenham og Liverpool var kaflaskiptur fyrir mína menn. Fyrri hálfleikur var fínn en sá seinni ekki eins góður. Mér finnst samt full ástæða til að vera bjartsýnn fyrir þetta tímabil og þau leikmannakaup sem búið er að gera vekja sterkar vonir um það, þó að Antonio Nunes hafi meiðst á fyrstu æfingunni og verði frá í hálfan mánuð. Það verður gríðarlega spennandi að sjá hvernig Alonso og Garcia koma inn í þetta. Ég mun allavega fylgjast spenntur með leiknum á Players, en það verður einmitt fánadagur hjá Liverpool-klúbbnum í kringum þennan leik. Ég hef líka verið að fylgjast með handboltalandsliðinu og hef eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að það sé best fyrir mig að fylgjast með honum í útvarpi. Ég neyddist einmitt til að gera það á miðvikudagsmorguninn vegna vinnunnar en þá unnum við fínan sigur á Slóvenum. Fyrsti leikurinn gegn Króötum var slakur af okkar hálfum og við vorum heppnir að tapa honum ekki stærra. Spánverjaleikurinn var hins vegar fínn þangað til síðustu mínúturnar þegar allt hrundi og þeim leik töpuðum við í raun mun stærra en við áttum skilið. Kóreuleikurinn í morgun var síðan ekki góður. Það munaði um markvörsluna sem var slök en hluti af ástæðunni fyrir því var líka sú að Kóreumenn fengu alltof mikið af opnum færum. Við fengum þau reyndar líka en klikkuðum á ótrúlega mörgum slíkum. Nú þarf semsagt að róða einhvern lífróður til að vinna Rússana á sunnudaginn...en vonandi tekst að vinna þá. KR er úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn eftir jafnteflið við Skagamenn. Skil ekki af hverju menn eru svona á hælunum þar. Ég held nefnilega að það sé ekkert að þessum mannskap. Það virðist bara vera eitthvað andleysi ríkjandi í liðinu sem ég hef enga skýringu á. Þetta er eitthvað sem menn verða að skoða fyrir næsta tímabil. Fyrst þetta er að fara svona vonar maður að FH-ingarnir taki titilinn. Þeir eru hreinlega það lið sem helst á það skilið núna og sýndu það með sigrinum í Eyjum. Þeir eiga reyndar Skagann á sunnudaginn sem er í raun annar úrslitaleikur. Ef þeir vinna þann leik er ég viss um að þeir taka titilinn. |