<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 03, 2004

Undarleg líkamsstarfsemi

Þegar maður vinnur mikið á einum degi á maður það til að verða þreyttur. Þannig var komið fyrir mér í gær. Ég varð að vinna í blaði til rúmlega eitt í nótt og var eiginlega orðinn þreyttur um níu-leytið. Síðan neyddist ég til að vakna fyrir átta í morgun þannig að ég bjóst fyrirfram við að ég yrði drulluþreyttur. En hvað gerist? Ég er nánast stálsleginn!! Eitthvað segir mér þó að mig muni langa til að skríða upp í rúm um hádegið.

Kransæðastífla

Í gær fékk ég þær fréttir að Sveinn bróðir mömmu, sem er tæplega 54 ára gamall, hefði verið lagður inn á spítala með kransæðastíflu. Sem betur ver reyndist þetta ekki alvarlegt. Ég óska Sveini hér með góðs bata!

Þetta rifjaði hins vegar upp fyrir mér eina skiptið sem ég hef þurft að njóta þjónustu Landspítalans í einhverjum mæli. Það var í mars 2001 þegar ég leið þær mestu vítiskvalir sem ég held að hægt sé að finna fyrir...ég fékk þá nýrnasteina. Og ég hef frekar blendnar tilfinningar til þjónustunnar.

Ég var lagður inn á fimmtudegi með gríðarlega verki í kviðnum, gefið morfín og látinn gista á bráðamóttökunni yfir nóttina. Sú nótt var reyndar ekki skemmtileg; rúmið var óþægilegt og megnið af nóttinni fór í að hlusta á hjúkrunarfólk reyna að fá einhvern gaur sem sennilega hefur komið inn af götunni til að leyfa að tekin yrði af honum blóðprufa. Morguninn eftir gaf læknir mér þrjár hugsanlegar skýringar á því hvað gæti verið að og með þetta átti að senda mér heim. Þá hafði reyndar gleymst að skoða þvagprufuna og þegar það hafði verið gert kom í ljós blóð í þvaginu sem benti til nýrnasteina. Ég var því boðaður í röntgen eftir helgi.

Ég var drulluslappur alla helgina og hafði m.a. nánast enga matarlyst þrátt fyrir hungurverki. Á mánudeginum mætti ég svo í röntgen sem átti að taka korter. Þetta fór þannig fram að sprautað var í mig skuggaefni og síðan átti að sjást á röntgenmyndum hvernig það skilaði sér. Það reyndist vera einhver stífla öðrum megin og það varð að halda áfram að taka þessar myndir á klukkutíma fresti yfir daginn þangað til eitthvað sæist. Þegar ég var farinn að finna fyrir stingjum í bakinu var ákveðið að leggja mig inn á þvagfæradeildina og þar hafði ég það næs og svaf vel í eina nótt. Síðan kom læknir með þær fregnir að það hefði fundist lítill steinn vinstra megin, reyndar það lítið að ég átti að geta skilað honum sjálfur með hjálp vöðvaslakandi lyfja. Það reyndist rétt, steinni skilaði sér nokkrum dögum seinna og þegar ég sá þennan títuprjónshaus sem hafði valdið mér slíkum kvölum lá við að ég skammaðist mín.

Ég naut í raun og veru bæði góðrar og slæmrar þjónustu á þessari spítalavist minni. Hún var mjög slök framan af, ég var látinn sofa við afar slæmar aðstæður og nánast skilinn eftir í algjörri óvissu um hvað væri að mér. Það munaði reyndar engu að ég myndi aldrei komast að því. Eftir að þetta varð svo ljóst naut ég hins vegar prýðilegrar þjónustu og gat meira að segja nartað í eitthvað af spítalamat.

Hvernig þjónustan hefur þróast síðustu þrjú árin veit ég hins vegar ekki ennþá.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?