<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Bæjarblaðaskot

Ég átti alltaf von á því að Fjarðarpósturinn myndi eitthvað skjóta á mig fyrir það að gera Friðrik Ingimar Oddsson, eða Fidda, að stofnfjáreiganda í Sparisjóði Hafnarfjarðar á dögunum. Það skot kom reyndar viku seinna en ég átti von á, og þegar það kom var það á afar sérstöku formi.

En byrjum á byrjuninni. Ég birti í blaðinu hjá mér 23. júní nöfn 46 manna sem ég sagði að væri stofnfjáreigendur í SPH. Taldi mig nokkuð góðan að hafa náð öllum nema einum. Eitt nafnið reyndist hins vegar ekki vera rétt og það var nafn Friðriks. Fyrir þá sem ekki þekkja til er Friðrik þekktur maður í bæjarlífi Hafnarfjarðar, eiginlega einn af karakterum bæjarins. Ég hafði setið í hópi nokkurra góðra manna, þar á meðal Halldórs Árna Sveinssonar, til að reyna að finna nöfnin. Halldór Árni sló þessu nafni fram og ég fattaði ekki grínið og skrifaði nafnið samviskusamlega niður. Ég uppgötvaði svo mistökin nokkrum klukkustundum eftir að blaðið var farið í prentun og það er skemmst frá því að segja að ég fékk algjört sjokk. Mér fannst, og finnst það reyndar enn, að þetta væru hrikaleg mistök og mér varð varla svefnsamt vegna þessa nóttina á eftir.

Ég átti von á einhverjum hringingum - ekkert gerðist. Ég átti líka von á skoti í Fjarðarpóstinum viku seinna - það gerðist ekki heldur. Hann náði hins vegar lista yfir alla stofnfjáreigendur, og á hann hrós skilið fyrir það að hafa verið fyrstur til þess. Eitt nafn þurfti hann reyndar að leiðrétta í næsta blaði á eftir, en það var í raun smávægileg leiðrétting sem ekki skipti meginmáli.

Fyrstu viðbrögðin sem ég fékk voru hins vegar sléttri viku eftir að umrætt blað hjá mér kom úr, eða 30. júní, og var það símtal frá Jakobi Bjarnari Grétarssyni blaðamanni á DV. Hann vildi gera skemmtilega frétt úr þessu og þó að ég hafi verið tregur til gat ég í raun ekki vikist undan því að gefa mitt komment á þetta. Í fréttinni var viðtal við Fidda og síðan mig. Hafði ekkert út á þá grein að setja né samskiptin við Jakob Bjarnar sem kom fram af heiðarleika. Finnst rétt að taka það fram þar sem DV hefur ekki alltaf á sig jákvætt orðspor.

En allavega, í Fjarðarpóstinum síðastliðinn fimmtudag birtist svo skotið sem ég var að bíða eftir, en hún var í formi klausu frá Kænumönnum. Þetta eru semsagt fastagestirnir á Kænunni sem sitja þar og ræða landsins gagn og nauðsynjar. Veit ég til þess að ritstjóri Fjarðarpóstsins er í nánu sambandi við þá félaga. Rétt er að láta þessa klausu fylgja í heild sinni, því hún er með kostulegra móti.

"Það kom okkur félögum Friðriks Oddssonar á kaffihúsinu Kænunni verulega á óvart þegar Víkurfréttir tilkynntu að hann væri ábyrgðarmaður í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Við vissum að vísu að ábyrgðarmenn voru valdir af handahófi í áranna rás og Friðrik lítið fylgst með fjármálum sínum undanfarið, enda bar hann sig ekki eins og stofnfjáreigandi í sparisjóði í prívatlífi þó hann aki um á jeppa síðasta misserið. Við teljum einfaldlega að hér sé hallað réttu máli.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Víkurfréttir eru á gráu svæði gagnvart okkur Kænumönnum. Fyrr á árinu nefndu þeir einn okkar Sólnes en hann er bara son. Það getur verið ágætt að vera Sólnes á Akureyri, en hér í Hafnarfirði er það út í hött.
Allir vita að við félagarnir á Kænunni erum ekki „sen“, „nes“, Briem né heldur Proppe, einfaldlega bara „son“ nema kannske Jóhannes Long og svo náttúrulega Gunnar Hjaltalín.
Þetta eiga blaðamenn að vita sem skrifa fréttir úr bæjarlífinu þó þeir hafi ekki alist hér upp frá unga aldri."


Þarna er semsagt verið að vísa í það að ég misritaði nafn Jóns Kr. Óskarssonar og kallaði hann Jón Kr. Sólnes. Ég veit ekki hvernig mér datt það í hug - þetta er bara eitthvað sem getur gerst þegar maður er að flýta sér um of. En svona geta venjuleg mistök verið túlkuð sem eitthvað allt annað. Og auðvitað þarf að minnast á það að ég er ekki uppalinn Hafnfirðingur.

Eitt er allavega ljóst - því oftar sem minnst er á Víkurfréttir í Fjarðarpóstinum, því augljósari verður ógnin sem ritstjóranum finnst stafa af okkur. Fjarðarpósturinn hefur verið duglegur við að skjóta á okkur frá því við hófum göngu okkar. Ég hef sagt það áður og segi það enn að hann ætti endilega að halda því áfram. Því ég er handviss um að því oftar sem hann gerir það, því betra fyrir okkur á Víkurfréttum.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?