<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 18, 2005

Fréttablaðið

Fréttablaðið hefur lengi verið sakað um að ganga erinda eigenda sinna. Mér hefur í gegnum tíðina fundist það heldur ósanngjarnar ásakanir, sérstaklega af því að þeir sem halda þessu fram hafa ekki svo ég viti getað bent á ákveðin dæmi um þessa misnotkun. Þeir hafa aðeins getað sagt: "Það sjá þetta allir." Sem eru auðvitað engin rök.

Ein frétt í Fréttablaðinu í morgun vakti mig hins vegar aðeins til umhugsunar um hvort skilin milli frétta og auglýsinga séu ekki neitt voðalega skýr. Þetta er frétt um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem fer fram á morgun. Þar eru stutt komment við þau tvö sem bjóða sig fram í fyrsta sætið en síðan fylgir þessi klausa:

"Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði ákvað að leyfa frambjóðendum sínum að auglýsa í fjölmiðlum fyrir prófkjörið. Mikið hefur verið auglýst í bæjarblöðum í Hafnarfirði en svo virðist sem auglýsingaherferðir hafi ekki náð inn í fjölmiðla með dreifingu á landsvísu."

Í fyrsta lagi: Af hverju ættu frambjóðendur að auglýsa annars staðar en í bæjarblöðum? Þetta eru nú einu sinni blöðin sem koma út í því bæjarfélagi sem kjósendur þeirra eru. Boðskapur þeirra á ekkert erindi við íbúa á landsvísu og það er miklu dýrara að auglýsa í stóru fjölmiðlunum heldur en bæjarblöðunum. Það getur því ekki borið vott um mikla fjármálavisku að heyja þessa baráttu eingöngu í stóru fjölmiðlunum.

Í öðru lagi: Hvað er fréttnæmt við það að frambjóðendurnir auglýsi ekki á landsvísu heldur í bæjarblöðunum? Mér finnst freistandi að álykta sem svo að Fréttablaðið sé eitthvað svekkt yfir að hafa ekki náð auglýsingum frá þessum frambjóðendum til sín og séu að taka það út í þessum skrifum. Ef það er rétt er það hið versta mál fyrir blaðið.

Í þriðja lagi: Hefði Fréttablaðið tekið það sérstaklega upp ef frambjóðendur hefðu tekið upp á því að auglýsa eingöngu í stóru fjölmiðlunum en ekki bæjarblöðunum? Það hefði í raun verið miklu merkilegra og stærra mál ef svo hefði verið.

Verð bara að segja það hreint út að þessu fréttaflutningur jók ekki sérstaklega traust mitt á blaðinu.

4 comments
Truflun

Strákarnir á Stöð 2 hafa verið með lið í gangi sem heitir Truflun, þar sem þeir hafa komið inn á viðkvæmum augnablikum einhvers viðburðar, yfirleitt þeim til ama sem taka þátt eða horfa á nema hvort tveggja sé. Ég hef tvisvar orðið vitni að svona truflun og hélt að ég væri í raun að verða vitni að þeirri þriðju í kvöld, nema að sá sem var aðallega í trufluninni var um 50 árum eldri en strákarnir.

Í kvöld var ég semsagt á Garðatorgi að mynda tónleika sem Þuríður Sigurðardóttir hélt. Sá hluti sem ég fylgdist með var hinn skemmtilegasti. Hins vegar var einn áhorfandi sem ég var ekki viss um hvort væri undir áhrifum áfengis eða hvort hann væri bara svona dyggur aðdáandi.

Tónleikunum seinkaði um hálftíma þar sem bassaleikarinn í hljómsveitinni var að spila í einhverju leikriti. Þegar öll hljómsveitin var komin á sviðið nema bassaleikarinn tók maðurinn sig til, labbaði að sviðinu og tók mynd af hverjum og einum í hljómsveitinni. Hmmm...

Bassaleikarinn kom svo og þá var Þuríður kynnt til sögunnar. Hún byrjaði á að afsaka töfina og sagði að svona gæti þetta nú orðið þegar maður vildi fá góða tónlistarmenn með sér. Okkar maður tekur sig þá til og svarar: "Þetta er eins og að bíða eftir flugfreyju sem er alltaf í loftinu." Þetta uppskar aðeins vandræðalegan hlátur örfárra einstaklinga og það eina sem Þuríður sagði við þessu var: "Já, þú segir það." Þann tíma sem ég var á staðnum var maðurinn til friðs og vonandi hefur svo verið það sem eftir er af tónleikunum.

Ætli svona menn geti kallast tónleikabullur?

0 comments

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Þorsteinn Guðmundsson

Af hverju er DV að leggja ofurkapp á að reyna að segja okkur að Þorsteinn Guðmundsson hafi verið fyndinn á Eddunni? Halda þeir virkilega að þeir geti sannfært fólk um það? Leikkonan sem leikur Sylvíu nótt hefur greinilega meiri húmor í nöglinni á litlu tá en Þorsteinn hefði í öllum sínum kroppi, og það jafnvel þó að hann bætti á sig 100 kílóum. Hef aldrei séð jafn pínlega lélegt uppistand og þetta kvöld.

***

Annað sem er pínlegt er að viðtalið við Jón Ólafsson hafi ekki verið birt í Kastljósinu. Hef samt enga ástæðu til að trúa ekki að tæknilegar ástæður hafi legið á bak við þetta, og vonandi verður viðtalið birt í kvöld í þeirri útgáfu sem það átti að birtast í gær. Ég bíð spenntur eftir því að minnsta kosti.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?