<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 26, 2004

Langloka

Þar sem langt er liðið frá síðasta bloggi ætla ég að fara yfir allt sem hefur gerst á þessum tveimur vikum sem liðnar eru...allavega helstu stórviðburðum.

Eurovision

Það var ógurlegt Eurovisionpartý hjá Guðlaugu og Júlla þar sem Jónsa gekk álíka illa og við var að búast. Það var þó ekki honum að kenna - hann stóð sig eins vel og hægt var, lagið var bara ömurlegt í tvær og hálfa mínútu en fínt síðustu hálfu mínútuna. Það gengur bara ekki upp að senda svoleiðis lag.

Mér finnst viðbrögð margra hins vegar dálítið fyndin um að austantjaldsþjóðirnar séu að taka yfir þessa keppni, bara af því að Úkraína og Serbía lenda í tveimur efstu sætunum. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst tvær - báðar þjóðirnar voru með góð lög og báðar þjóðirnar fóru í gegnum forkeppni sem þýðir auðvitað að áhorfendur voru með þetta lag í ferskara minni en hin lögin. Jónsi hefði t.d. örugglega lent hærra ef hann hefði komist inn í gegnum forkeppnina.

En af hverju tala menn svona? Voru menn eitthvað skíthræddir af því að Írar unnu keppnina fjórum sinnum á fimm árum á síðasta áratug? Höfðu menn áhyggjur af að Eystrasaltslöndin væru að taka keppnina yfir þegar Lettland og Eistland unnu keppnina sitthvort árið. Menn tala um að slavnesku þjóðirnar hafi kosið hvort annað. Er slíkt pólitík eitthvað ný af nálinni? Grikkland og Kýpur hafa gefið hvert öðru 12 stig í þessari keppni frá því að elstu menn muna. Norðurlandaþjóðirnar hafa alltaf verið nokkuð góðar hver við aðra. Þannig að ég skil ekki þessa hræðslu. Það kemur stundum fyrir að leiðinleg lög vinni þessa keppni, það gerðist t.d. í fyrra með tyrkneska lagið. Þetta er akkúrat eitt af því sem er skemmtilegt við þessa keppni - það geta óvæntir hlutir gerst. Og að fara að hafa áhyggjur af því strax að keppnin sé að fara til andskotans er út í hött.

Liverpool-djamm

Stjórnin fór á lokadjamm starfsársins á miðvikudaginn í síðustu viku og það var hið skemmtilegasta. Haldið var pool-mót milli stjórnarmanna og ég var í harðri baráttu við Gunna um neðsta sætið. Á endanum lentum við þar báðir. Þynkan sem ég lenti í daginn eftir var hins vegar skuggaleg og sú mesta í mörg ár. Agalegt.

Stúdentsafmæli

Á laugardag hélt ég upp á 10 ára stúdentsafmæli og bauð bekknum mínum í partý. Þangað komu níu stelpur en í bekknum mínum voru 19 alls, 17 stelpur og tveir strákar. Það var vissulega söknuður af hinum stráknum í bekknum, leikaranum Ólafi Darra Ólafssyni, sem var að sýna Rómeó og Júlíu þetta sama kvöld. En partýið var fínt og að því loknu var farið út í Viðey þar sem matur var borðaður og ball haldið. Þetta var hið skemmtilegasta og gaman að sjá þetta fólk eftir tíu ár. Sérstaklega var gaman að sjá að sumir höfðu breyst töluvert en aðrir ekki neitt. En kvöldið var hið skemmtilegasta. Þetta reyndist hins vegar vera þriðja djammið á einni viku og því verður væntanlega tekin góð pása í þessum málum núna.

Þrítugsafmæli

Já, á mánudaginn varð ég þrítugur. Dagurinn var reyndar ekki mikið öðruvísi en aðrir dagar en þó var eldaður góður matur um kvöldið. Um næstu helgi verður svo væntanlega matarboð fyrir fjölskyldumeðlimi og hugsanlega eitthvað síðbúið partý í sumar þar sem ég er ekki í gríðarlegu stuði fyrir mikið djamm þessa dagana.

Þá er þetta búið í bili.

0 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?